mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Yfirlýsing frá fagráði í hrossarækt

12. júlí 2013 kl. 12:27

Guðlaugur Antonsson

þegar dómari varð uppvís að óviðeigandi málflutningi í dómpalli.

Formanni fagráðs í hrossarækt hafði borist bréf dags. 15. júní 2013, sem einnig hafði birst sem opið bréf undirritað af Bjarna Þorkelssyni, Páli Braga Hólmarssyni, Vilhjálmi Þórarinssyni og Má Ólafssyni. Afrit af bréfinu hafði verið sent Bændasamtökum Íslands, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og landbúnaðarráðherra.

Megin tilefni bréfsins er atvik sem varð við dóma á Selfossi 29. maí sl., þegar dómari varð uppvís að óviðeigandi málflutningi í dómpalli. Í framhaldinu sagði umræddur dómari sig frá dómstörfum á Íslandi þetta árið og jafnframt sendi Guðlaugur V. Antonsson ábyrgðarmaður hrossaræktarsviðs RML frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði atvikið óásættanlegt og bað hlutaðeigandi afsökunar.

Í umræddu bréfi frá þeim félögum eru  reyfaðir ýmsir þættir kynbótastarfsins sem bréfriturum þykir mega betur fara.

Fagráð tekur undir að kynbótastarfið þurfi sífellt að vera til skoðunar og þar séum við ekki komin á leiðarenda jafnvel þó byggt sé á traustum grunni og vönduðu skipulagi fyrri forsvarsmanna í hrossaræktar starfinu. Í kjölfarið af umræddum atburði þarf að fara yfir og móta skýrari siða- og verklagsreglur við kynbótadóma. Hinsvegar telur fagráð það ekki hlutverk sitt að taka efnislega til umfjöllunar einstaka þætti bréfsins heldur sé þeim vísað í hefðbundinn farveg umræðna og tillögugerðar þ.e. til umræðu meðal hrossaræktenda á haustfundum aðildarfélaga búgreinarfélagsins Félags hrossabænda og svo á aðalfundi félagsins eins og hefðir gera ráð fyrir. Á þeim fundi séu að venju lagðar fram tillögur sem í framhaldinu sé vísað til fagráðs í hrossarækt og síðan áfram til aðalfundar alþjóðasamtakanna FEIF eftir því sem efni þeirra gefur tilefni til.   

Auk fyrrnefnds opins bréfs hafði fagráði borist bréf frá stjórn Hrossaræktarsamtaka Suðurlands.

Í bréfinu vitnar stjórnin til fyrrnefndarar uppákomu við dóma á Selfossi og hvetur fagráð til viðeigandi og nauðsynlegra aðgerða. Er það mat stjórnar samtakanna að setja þurfi skýrar vinnu- og siðareglur gagnvart starfi kynbótadómara þar sem tekið sé á hagsmunatengslum og vinnufyrirkomulagi við dóma auk nákvæmari skilgreiningar á hlutverki formanns dómnefndar.

Fagráð fagnar bréfi Hrossaræktarsamtaka Suðurlands og telur það gott innlegg í umræður á

haustfundum á þessum vettvangi.

Í framhaldinu hefur Fagráð nú ákveðið í samráði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri að boða til málþings um kynbótakerfið í fyrrihluta septembermánaðar, dagskrá og dagsetning verður auglýst síðar.

 

Fagráð í hrossarækt.

 

Afrit sent:

Bændasamtökum Íslands.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.

Landbúnaðarráðuneytinu.

Hrossaræktarsamtökum Suðurlands.