föstudagur, 18. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrífandi hópreið

5. apríl 2015 kl. 13:59

Jóhann Skúlason og Arion frá Eystra-Fróðholti ásamt Kristínu Lárusdóttur og Þokka frá Efstu-Grund á Allra sterkustu 2015.

Níu hross kepptu í úrslitarimmu töltmótsins Allra sterkustu - Myndir

Það má velta því upp hvort glæsilegasta hópreið í stuttri sögu Sprettshallarinnar hafi farið fram í gærkvöldi. Þau voru að minnsta kosti glæsileg tilþrifin sem níu töltarar sýndu í einu og sömu úrslitum móts hinna allra sterkustu. 

Sjö hæst dæmdu keppendurnir eftir forkeppni áttu þátttökurétt í úrslitum. Þegar allir keppendur, 21 talsins, höfðu lokið sýningum sínum var ljóst að þrír knapar höfðu hlotið sömu einkunn í 7.-9. sæti og því urðu úrslitin fjölmennari en ætlað var.

Efstur inn í úrslitin var Sigurður Sigurðarson en hann sat Örnu frá Skipaskaga, glæsilegri hryssu undan Hreimi frá Skipaskaga og Glímu frá Kaldbak. Þorvaldur Árni Þorvaldsson og Stjarna frá Stóra-Hofi stóðust væntingar er þau hlutu 8,27 og annað sætið eftir forkeppni. Áhorfendur biðu örugglega spenntir eftir að sjá Jóhann Skúlason, heimsmeistara í tölti, spreyta sig á hæst dæmda stóðhesti síðasta árs, Arion frá Eystra-Fróðholti. Þeir félagar hlutu 8,23 og voru þriðju inni í úrslit.

Úrslitin voru að vonum krefjandi fyrir dómara enda gustaði af öllum hinum níu efstu. Sigurvegari kvennatöltsins Svellkaldar konur, Kristín Lárusdóttir og Þokki frá Efstu-Grund heillaði heyranlega áhorfendur við sýningu á hægu tölti og var ljóst að þau myndu berjast um efstu sæti. Þau luku að lokum keppni í þriðja sæti. Jakob Svavar Sigurðsson og Kilja frá Grindavík fóru hins vegar mikinn á yfirferðinni en þau luku keppni í 4. sæti. Jóhann og Arion áttu einnig góða spretti, þrátt fyrir stutt samstarf, og urðu þeir í 5. sæti. Þorvaldur Árni Þorvaldsson og Stjarna frá Stóra-Hofi áttu einnig jafna og góða sýningu og hlutu silfrið.

Sigurður Sigurðarson og Arna frá Skipaskaga héldu hins vegar forystu sinni frá upphafi úrslita og voru nokkuð öruggir sigurvegarar. Verður spennandi að sjá Sigurð og Örnu í áframhaldandi keppni en þetta var fyrsta mót þeirra saman.

Nokkur missir var af nokkrum keppendum sem auglýstir höfðu verið á ráslistum. Þannig fengu áhorfendur ekki að bera augum margfalda Íslandsmeistara, Árna Björn Árnason og Storm frá Herríðarhóli. Þá hafa eflaust margir beðið spenntir eftir að sjá Sigurð V. Matthíasson og Andra frá Vatnsleysu, Huldu Gústafsdóttur og Kiljan frá Holtsmúla eða Sigurbjörn Bárðarson á Jarli frá Mið-Fossum en þau voru meðal þeirra sem afskráðu. Þá mætti sigurhestur síðasta árs, Þytur frá Efsta-Dal ekki ásamt knapa sínum Gústaf Ásgeiri Hinrikssyni.

Úrslit Allra Sterkustu 2015

  1. Sigurður Sigurðarson og Arna frá Skipaskaga 8,78
  2. Þorvaldur Árni Þorvaldsson og Stjarna frá Stóra-Hofi 8,56
  3. Kristín Lárusdóttir og Þokki frá Efstu-Grund 8,50
  4. Jakob Svavar Sigurðsson og Kilja frá Grindavík 8,39
  5. Jóhann Skúlason og Arion frá Eystra-Fróðholti 8,28
  6. Helga Una Björnsdóttir og Vág frá Höfðabakka 8,17
  7. Daníel Jónsson og Kolbrá frá Kjarnholtum 7,67
  8. Reynir Örn Pálmason og Bragur frá Seljabrekku 7,50
  9. Ólafur Andri Guðmundsson og Straumur frá Feti 7,50

Niðurstöður úr forkeppni

Helga Una Björnsdóttir Vág frá Höfðabakka Þytur Brúnn 7,63
Siguroddur Pétursson Hrynur frá Hrísdal Snæfellingur Rauður 7,07
Gísli Gíslason Trymbill frá Stóra-Ási Stígandi Brúnn 7,60
Ásmundur Ernir Snorrason Spölur frá Njarðvík Máni Brúnn 6,67
Reynir Örn Pálmason Bragur frá Seljabrekku Hörður Brúnn 7,63
Lena Zielinski Sprengihöll frá Lækjarbakka Geysir Rauður 6,90
Sigurður Sigurðarson Arna frá Skipaskaga Geysir Dökkjörp 8,30
Hinrik Þór Sigurðsson Skyggnir frá Aðalbóli (Skeiðvöllum) Sörli Rauður 6,07
Logi Þór Laxdal Dessi frá Stöðulfelli Brúnn 6,70
Ólafur Andri Guðmundsson Straumur frá Feti Geysir Brúnn 7,70
Daníel Jónsson Kolbrá frá Kjarnholtum I Geysir Brúnn 7,63
Játvarður Jökull Ingvarsson Röst frá Lækjarmóti Hörður 7,17
Bylgja Gauksdóttir Dagfari frá Eylandi Bleikálóttur 7,00
Hallgrímur Birkisson Dáti frá Hrappsstöðum Geysir Svartur 6,80
Jakob Svavar Sigurðsson Kilja frá Grindavík Dreyri 8,00
Berglind Ragnarsdóttir Frakkur frá Laugavöllum Fákur Jarpur, tvístjörnóttur 7,50
Viðar Ingólfsson Dáð frá Jaðri Fákur Rauðglófext 7,43
Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir Spretta frá Gunnarsstöðum Hörður Brún
Kristín Lárusdóttir Þokki frá Efstu-Grund Kópur Rauður m.skásettastjörnu 8,17
Jóhann R. Skúlason Arion frá Eystra-Fróðholti 8,23
Þorvaldur Árni Þorvaldsson Stjarna frá Stóra-Hofi Ljúfur 8,27

Myndir af úrslitahrossum: