fimmtudagur, 14. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vonarneistar

23. nóvember 2014 kl. 16:18

Þoka frá Hólum

B flokks sigurvegarar, 10 skeiðarar og heiðursverðlaun.

Nú þurfa stóðhestaeigendur að huga að skila inn stóðhestaskýrslum en nokkrir eru þegar búnir að skila inn. Konsert frá Hofi er sá hestur sem sló í gegn á árinu og fyljaði hann um 100 hryssur í sumar. Margir eru orðnir spenntir að sjá folöldin sín næsta vor og strax er vonin um gæðinginn farin að kvikna í brjóstum eigandanna.

Eiðfaxi fór á stúfana og athugaði hvað hryssur fóru undir hvaða hest. Hérna eru nokkrar hryssur sem haldið varið í sumar en þær eiga það allar sameiginlegt að hafa verið áberandi á keppnisbrautinni eða í ræktun á síðustu árum.

Þoka frá Hólum er ein af fremstu ræktunarmerum landsins. Hún á sjö dæmd afkvæmi og er meðal einkunn hæfileika þeirra 8.46. Hæst dæmda afkvæmi Þoku er Þóra frá Prestbæ en hún er með yfir 9.00 fyrir hæfileika. Þoka hefur hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fyrsta sæti. Þoka fór undir stjörnuna Konsert frá Hofi. Konsert er alveg óreyndur kynbótahestur en hann sló í gegn í sumar á Landsmótinu og held ég að það sé óhætt að segja að hann sé hestur ársins. Samkvæmt valpörun WorldFengs yrði afkvæmi þeirra með 127,5 í BLUP. Hæst yrði það fyrir háls, herðar og bóga (119,5), skeið (120) og fegurð í reið (119,5).

Þóra frá Prestbæ er þriðja hæst dæmda hryssa heims með 8.77 í aðaleinkunn. Hún var hæst dæmda merin á LM2011 en hún er unda Þoku og Orra frá Þúfu. Þóra hlaut 9.08 fyrir hæfileika þar af 10 fyrir skeið. Þóru var haldið undir Spuna frá Vesturkoti í sumar og verður því spennandi að sjá hvort afkvæmi þeirra hljóti ekki 10 fyrir skeið eins og foreldrarnir. Samkvæmt valpörun WorldFengs hlítur afkvæmið 133 í BLUP. Efst er það fyrir vilja og geðslag (127), skeið (125,5) og fegurð í reið (123,5).

Kjarnorku frá Kálfholti þarf vart að kynna en hún sigraði B flokkinn á LM2011. Kjarnorka vakti mikla athygli fyrir mikið fas, útgeislun og mikið rými.  Kjarnorka á tvö skráð afkvæmi; tvær hryssur, önnur er undan Ómi frá Kvistum og hin undan Kjarna frá Þjóðólfshaga. Kjarnorku var haldið í sumar undir Loka frá Selfossi en Loki sigraði B flokkinn á Landsmótinu í sumar. Sigurður og Sigríður í Þjóðólfshaga ætla eflaust að fá enn einn B flokks sigurvegarann næsta sumar. Afkvæmi Loka og Kjarnorku yrði með 112,5 í BLUP samkvæmt valpörun WF. Hæst skorar það í fegurð í reið (123,5), tölti (119) og brokki (118).

Auðna frá Höfða hefur gefið hvern gæðinginn á fætur öðrum en hún er móðir þeirra Als, Asa og Auðs frá Lundum II. Auðna á sjö dæmd afkvæmi þar af fjögur í fyrstu verðlaunum. Auðnu var haldið í sumar undir Skýr frá Skálakoti en Skýr er undan Sóloni frá Skáney og Vök frá Skálakoti. Skýr fór strax í góðan dóm þegar hann var fjögurra vetra og hefur verið að bæta sig jafnt og þétt í gegnum árin. Í sumar hlaut hann í aðaleinkunn 8.70 þar af 8.85 fyrir hæfileika. Afkvæmi þeirra yrði með 115 í BLUP og skorar hæðst í fegurð í reið (115,5).