laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Völlurinn þolir illa rigningar

odinn@eidfaxi.is
27. maí 2014 kl. 11:55

Selfoss braut

Hagsmunir ræktunarstarfsins að leiðarljósi

Vegna fréttar á vef Eiðfaxa þann 26. maí þar sem staðhæft er að forsvarsmenn RML hafi haft annað en hagsmuni ræktunarstarfsins að leiðarljósi við ákvörðun um að færa kynbótasýningu sem halda átti á Selfossi dagana 26.-28. maí til Hafnarfjarðar viljum við koma eftirfarandi á framfæri.

Ákvörðun um flutning á sýningunni var tekin í kjölfar skoðunar á vellinum seinnipart sunnudagsins 25. maí þar sem sýningastjóri mat það svo að völlurinn yrði ekki tilbúinn fyrir kynbótasýningu klukkan 8 morguninn eftir vegna mikilla rigninga. Í ljósi þess að áður hefur þurft að fresta eða færa sýningar af vellinum þar sem hann þolir illa rigningar og ljóst var að ekkert svigrúm yrði til að bæta við hrossum í síðustu tvær sýningarvikurnar ef tafir yrðu á dómum í þessari viku, töldu forsvarsmenn RML rétt að taka ekki neina áhættu heldur færa sýninguna strax til Hafnarfjarðar. Kunnum við Sörlamönnum bestu þakkir fyrir að hafa tekið á móti okkur með svo stuttum fyrirvara þannig að ekki þyrfti að biðja starfsmenn, sýnendur og eigendur að breyta sínum plönum upp á von og óvon að Selfossvöllurinn yrði klár í sýningarhald á næstu dögum.

Að sjálfsögðu er það svo að sýningahaldarar verða að vega og meta aðstæður hverju sinni og margir óvissuþættir eru til staðar, sá stærsti er líklega veðrið sem enginn ræður við. Okkar skyldur eru fyrst og fremst við hesteigendur og viljum við reyna að tryggja að þeir geti sýnt þau hross sem þeir hafa skráð til dóms fyrir Landsmót. Í ljósi reynslunnar töldum við að völlurinn í Hafnarfirði væri öruggari kostur í stöðunni. Við vísum því alfarið á bug öllum fullyrðingum varðandi það að eitthvað annað en faglegar forsendur hafi legið að baki þessarar ákvörðunar, enda gerir það enginn að gamni sinu að leggja í þá vinnu að færa heila kynbótasýningu með svo stuttum fyrirvara.Virðingarfyllst

Karvel L. Karvelsson, framkvæmdastjóri RML

Gunnfríður E. Hreiðarsdóttir, fagstjóri búfjárræktar RML