sunnudagur, 20. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Völlurinn eins og blautur sandkassi

11. júní 2015 kl. 14:37

Unnið var að betrumbótum á Hlíðarholtsvelli á Akureyri í morgun.

Óánægja með aðstæður á kynbótasýningu á Akureyri.

Nokkur óánægja skapaðist meðal sýnenda kynbótahrossa á kynbótasýningu sem fram fer nú á Hlíðarholtsvelli á Akureyri. Ástæðan ku vera slæmar vallaraðstæður. Völlurinn var breikkaður rétt fyrir sýningu og nýtt undirlag sett á brautina. Rigning nyrðra varð til þess að völlurinn var afar blautur og þungur í gær.

,,Brautin var alltof laust og lin, hún er eins og blautur sandkassi. Hrossin verða jarðbundinn og þung við það. Ungu hrossin sérstaklega, sem voru uppgefin eftir sýningu. Það er ægilega erfitt að ríða í þessu, þau geta hvorki töltað né skeiðað. Þau leita út að línunum og þar er undirlagið nýtt og enn mýkra," segir Þórhallur Rúnar Þorvaldsson sem sýndi sjö hross þar í gær. ,,Það er ekki boðlegt að breyta brautinni stuttu fyrir sýningu." Hann bendir á að í innan við 30 kílómetra fjarlægð séu tveir góðir kynbótavellir sem hægt væri að nýta, á Melgerðismelum og á Dalvík.

Tæp 30 hross voru sýnd á Hlíðarholtsvelli í gær. Þegar litið er yfir einkunnir fyrir kosti á sýningunni sést að fátt er þar um fína drætti. Meðaleinkunn kosta er um 7,60.

Samkvæmt reglum um kynbótasýningar, sem nálgast má hér, skal yfirlag kynbótabrautar vera sambærilegt yfirlagi góðra keppnisvalla, þess skal gætt að yfirlagið sé slétt og vel valtað. Eins skal þess gætt eins og kostur er að brautin sé í sambærilegu ástandi út alla sýninguna.

Knapar lögðu fram formlega kvörtun til sýningarstjórnar. Kvörtunin var tekin til greina og í morgun mátti sjá valtara á vellinum. Að sögn Önnu Guðrúnu Grétarsdóttur, sýningarstjóra, voru aðstæður á vellinum ekki metnar hættulegar eftir gærdaginn, lítið var um áverka eða önnur skakkaföll og því héldi sýningin áfram. Hún segist þó skilja sjónarmið sýnenda,  rigningin hefði sett strik í reikninginn. Völlurinn sé miklu betri í dag.

Síðari dagur fordóma á Hlíðarholtsvelli fer nú fram en yfirlitssýning fer fram á morgun og hefst kl. 9.