laugardagur, 23. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grein um íslenska hestinn í tímaritinu Animal

8. janúar 2014 kl. 18:27

Sveitt hross eftir átök

Vísindagrein um líkamlegt álag á hross á kynbótasýningum.

Í fyrsta sinn hefur líkamlegt álag íslenskra hrossa á kynbótasýningu verið lýst í alþjóðlegu tímariti. Vísindagrein starfsmanna við hestafræðideild Hólaskóla – Háskólans á Hólum birtist í evrópska vísindaritinu Animal og er aðgangur að greininni opinn öllum hér á netinu unnt að sækja hana á pdf-sniði.

 Guðrún J. Stefánsdóttir, lektor, kynnti frumniðurstöður rannsóknarinnar á ráðstefnunni Hrossarækt 2012.

 Á vefsíðu Háskólans á Hólum birtist útdráttur greinarinnar á íslensku:

 "Í þessari rannsókn var mældur hjartsláttur, öndunartíðni, blóðkornahlutfall (hematocrit), líkamshiti og nokkrir þættir í plasma í íslenskum hrossum, af ólíku kynferði og aldri sem fóru í gegnum reiðdóm í kynbótasýningu.

Rannsóknin var gerð á Íslandi á 266 hrossum (180 hryssum og 86 stóðhestum, sem skiptust í fjóra aldurshópa; 4, 5, 6 og 7 vetra og eldri). Líkamshiti og öndunartíðni voru skráð og blóðsýni tekið fyrir upphitun og eftir reiðdóm. Hjartsláttur hrossanna, vegalengd og hraði voru mæld í upphitun, reiðdómi og 5 mín eftir að reiðdómi lauk (í endurheimt).

Vegalengdin sem hrossin fóru í reiðdómnum var 2.9 ± 0.4 km (á bilinu:  1.8-3.8 km, n=248), tímalengdin var 9:37±1.22 mín:sek (á bilinu: 5:07-15:32 mín:sek, n=260) og meðalhraðinn var 17.8 ± 1.4 km/klst (á bilinu: 13.2-21.3 km/klst, n=248).

Meðalhjartsláttur var 184 ± 13 slög/mín (á bilinu: 138-210 slög/mín, n=102) og meðaltal hæsta hjartsláttar var 224 ± 9 slög/mín (á bilinu: 195-238 slög/mín, n=102), og í 36% af tímanum í reiðdómi var hjartsláttur hrossanna ≥ 200 slög/mín.

Mjólkursýra í plasma eftir reiðdóm var 18.0 ± 6.5 mmol/L (á bilinu: 2.1-34.4 mmol/L, n=266) og það var aukning í plasmapróteini og styrk vöðvaensímanna kreatinkinase og aspartateaminotransferase, svo og öndunartíðni, líkamshita og hematocrit.

Stóðhestar fóru lengri vegalengd (í upphitun og reiðdómi) (P < 0.05), á meiri hraða í reiðdómnum (P<0.001) en hryssurnar og höfðu hærra blóðkornahlutfall og lægri hjartslátt og mjólkursýrugildi.

Það voru lítil aldursáhrif, en 4 og 5 vetra hrossin höfðu lægra blóðkornahlutfall en eldri hrossin og 4 vetra hross höfðu hærri öndunartíðni eftir reiðdóm en eldri hrossin, þó þeim væri riðið styttra, í styttri tíma og næðu ekki eins miklum hámarkshraða (P < 0.1).  

Niðurstöðurnar sýndu að reiðdómur í kynbótasýningu er mikið líkamlegt álag. Niðurstöðurnar sýndu ennfremur að stóðhestar eiga auðveldara með þetta líkamlega en hryssurnar (eru þolnari) og að aldur hrossanna hefur takmörkuð áhrif á líkamlegu svörunina. Það er lagt til að þessar niðurstöður megi hafa til hliðsjónar þegar þróaðar eru leiðir til að þjálfa kynbótahross og einnig til að þróa matsleiðir á þjálfunarástandi íslenskra hrossa, sem gætu bætt líkamlega getu og velferð hrossanna."