föstudagur, 15. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vinsæll fatamarkaður

20. janúar 2010 kl. 14:08

Vinsæll fatamarkaður

Um síðast liðna helgi var haldinn fatamarkaður með notuð reiðföt í félagsheimili Fáks í Víðidal. Þetta er annað árið í röð sem markaðurinn er haldinn og svo virðist sem vinsældir hans aukist jafnt og þétt.

Í forsvari fyrir markaðinn var Ólöf Rún Tryggvadóttir Fákskona og að hennar sögn fékk framtakið mikil og góð viðbrögð fólks. Mikið var um að fólk kæmi með notuð reiðföt, skó og þess háttar til að selja á sanngjörnu verði og kaupa sér annað sett í staðinn.

Fólki finnst synd að henda heilum fatnaði og skóm og hið besta mál ef einhver getur nýtt fötin áfram. Sérstaklega var mikið um barna- og unglingafatnað, en eins og foreldrar þekkja vel eru krakkarnir fljót að vaxa uppúr fötunum og tilvalið að skipta þá út á markaði sem þessum.

Þetta er frábært framtak hjá Fákskonum og talaði Ólöf Rún um að jafnvel yrði markaðurinn opnaður aftur innan skamms, þegar eitthvað væri um að vera í félagsheimilinu samhliða.