sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vinnubrögðum stjórnar LH mótmælt

21. desember 2011 kl. 09:35

Vinnubrögðum stjórnar LH mótmælt

Í kjölfar vals stjórnar LH á landsmótsstöðum fyrir árin 2014 og 2016 sendir stjórn hestamannafélagsins Funa frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

"Hestamannafélagið Funi í Eyjafirði gagnrýnir harðlega ákvörðun stjórnar LH um að velja landsmóti stað á Gaddstaðaflötum 2014 og Vindheimamelum 2016.
 
Tillaga um að hafa tvö landsmót á Suðurlandi á móti einu á Norðurlandi var rædd og hafnað af formannafundi LH og aðalfundi Félags hrossabænda 2011. Æðsta samkoma LH er ársþing og þar á eftir koma formannafundir og gagnrýnir félagið stjórn LH fyrir andlýðræðislega ákvarðanatöku.
 
Enn og aftur eru Melgerðismelar sniðgengnir og samkvæmt rökum sem talin hafa verið upp þá segir formaður LH að fjárhagslegt og félagslegt bakland fyrir landsmóti í Eyjafirði hafi ekki verið nægilega tryggt. Á fundi með fulltrúum LH, stjórn Funa, sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar og fulltrúum Akureyrarbæjar komu þessar áhyggjur LH ekki fram, enda var verið að bjóða fram landsmótsstað sem er hægt að standsetja án þess að skuldsetja svæðið og aðstandendur þess.  Það lá fyrir stuðningur Eyjafjarðarsveitar, sem er fjárhagslega sterkt sveitarfélag og einnig stuðningur Akureyrarbæjar við landsmót á Melgerðismelum.  Jafnframt lá fyrir stuðningur Hrossaræktarsamtaka Eyfirðinga og Þingeyinga og Hestamannafélagsins Léttis sem er stærsta hestamannafélagið á Norðurlandi og meðeigandi Funa að Melgerðismelum. Hvernig er hægt að líta fram hjá öllum þessum stuðningi við Landsmót í Eyjafirði án þess að hleypa Melgerðismelum að samningaborðinu?  Hvar eru samþykktir fyrir því að tvö svæði á landinu njóti afgerandi hluta opinbers stuðnings og þess slagkrafts sem fylgir landsmótshaldi?
 
Melgerðismelar  sameina vel kosti  dreifbýlis og þéttbýlis með skjólgott og rúmgott svæði í blómlegri sveit með alþjóðaflugvöll, nægt gistirými fyrir menn og hesta, veitingastaði, verslanir, afþreyingu og margt fleira, allt innan 20 mínútna akstursfjarlægðar. Eyfirðingar hafa með stolti boðið Melgerðismela fram í þeirri staðföstu trú að fáir staðir bjóði upp á betri umgjörð til landkynningar og markaðssetningar á íslenska hestinum.
Hver er framtíðarsýn stjórnar LH? Endurspeglar hún framtíðarsýn grasrótarinnar? 
 
Á Melgerðismelum skortir ekki framtíðarsýn og uppbyggingin heldur stöðugt áfram. Búið er að byggja nýjan kynbótavöll, sem kynbótaknapi ársins 2010 sagði síðastliðið sumar að væri besti kynbótavöllur landsins. Skógrækt á Melunum nær aftur til ársins 1983 og eru hæstu trén orðin fimm metra há sem gjörbreytir veðurfari og ásýnd svæðisins. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á félagsheimilinu. Komin er reiðskemma á svæðið og búið er að skipuleggja hesthúsabyggð og byrjað er að byggja eftir því skipulagi. Þar hafa tamningastöðvar verið reknar til margra ára enda óvíða betri aðstaða til útreiða. Uppbygging mun halda áfram með eða án opinberra styrkja og stuðnings LH og þykir okkur leitt að íslenski gæðingurinn og Íslandshestafólk fái ekki notið þess með okkur vegna þröngsýni stjórnar LH.
 
Stjórnunarhættir núverandi stjórnar LH eru andfélagslegir og einkennast af valdníðslu og vanvirðingu við gildi íþróttahreyfingarinnar þar sem markmiðið er að byggja upp aðstöðu til íþróttaiðkana sem víðast. Enn og aftur eru hagmunasamtök hestamanna í fylkingarbrjósti sérhagsmunagæslu fyrir fámennar klíkur í stað þess að gæta sanngirni og sýna víðsýni um framþróun hestamennsku í landinu. Munum við ekki hvert spillingin og græðgisvæðingin leiddi okkur?
 
Stjórn Funa kallar eftir breyttum vinnubrögðum þar sem jafnræði er haft að leiðarljósi þegar verkefnum tengdum hestamennsku er skipt milli félagsmanna innan LH.
 
Stjórn Hestamannafélagsins Funa."