laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vill stofna ný heildarsamtök hestamanna

20. febrúar 2010 kl. 23:18

Áhrifamenn í hestamennskunni

Ágúst Sigurðsson er hrossabóndi í Kirkjubæ og rektor Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Hann hefur verið einn af áhrifamestu mönnum innan hestamennskunnar undanfarinn áratug. Ágúst var hrossaræktarráðunautur frá 1999 til 2004 og formaður Átaks í hestamennsku, nefndar sem sett var á laggirnar árið 2000 til að styrkja innviði og undirstöður hestamennskunnar í landinu. Nú hefur hann setti mark sitt á menntunarmál í hestamennsku, og sennilega ekki öll kurl komin til grafar þar. Við hittum Ágúst í Kirkjubæ á dögunum og spurðum fyrst um Átaksverkefnið.

Hugmyndin tekist í grunnatriðum

-Finnst þér að Landsmóts ehf. hafi skilað því sem menn væntu?

„Grunnatriðin hafa að minnsta kosti tekist. Það var lagt upp með það að koma á hreint hvar ábyrgðin á rekstri Landsmótanna lægi. Það var áður mjög í lausu lofti. Rekstrarleg ábyrgð á mótunum liggur hjá þessu einkahlutafélagi í eigu LH og BÍ. Rekstrarábyrgð mótanna hér áður fyrr var út og suður. Stundum var jafnvel um að ræða persónulegar fjárskuldbindingar þeirra manna sem tóku að sér undirbúning mótanna, oftar en ekki í sjálfboðavinnu fyrir sín hestamannafélög. Þetta er nú liðin tíð sem betur fer. Tilgangur með stofnun Landsmóts ehf. var auðvitað einnig að ná meiri samfellu í mótin rekstrarlega séð og ná betri rekstrarniðurstöðu. Það hefur að einhverju leyti tekist. Félagið skilaði ágætum hagnaði eftir síðasta mót. Það hefur hins vegar ekki tekist að þróa þetta félag áfram og nýta það til fleiri verkefna eins og upphaflega var rætt.“

Deilur í Átaksnefndinni

Aðilar innan LH, meðal annars ýmsir fyrrverandi og núverandi stjórnarmenn, hafa verið ósáttir við hvernig staðið var að Átakinu og telja að LH hafi verið sett til hliðar. Stærstu samtökin hafi fengið minnst af peningunum og haft minnst um stefnumótunina að segja. Þeir telja að Átakið hafi í raun skekkt áherslur og hlutföll í hestamannahreyfingunni. Hvað vilt þú segja um það?

„Í samningi um Átakið sem gerður var við Landbúnaðarráðuneytið var komið inn á að það ætti meðal annars að efla félagslega samstöðu  hrossabænda og hestamanna. Þetta var heilmikið rætt, en það kom fljótlega upp ágreiningur hvernig það yrði best gert. LH hafði aðra sýn á málið en fulltrúar hinna aðilanna í nefndinni. Jarðvegur fyrir niðurstöðu í þeirri  umræðu var einfaldlega ekki fyrir hendi og hún dagaði uppi. Ég hafði þann skilning að Átakið væri ekki sett upp sem sjóður til að deila út til aðildarfélaga samningsins heldur til þess að ráðast í brýn verkefni sameiginlega. Eftir því tel ég að hafi verið unnið. Það má spyrja hvort LH hefði átt að hafa meira vægi í nefndinni, fleiri fulltrúa. Þá hefðu áherslur kannski orðið aðrar. Ég man hins vegar ekki til þess að nokkurntímann hafi reynt á atkvæðagreiðslur, menn töluðu sig einfaldlega að sameiginlegri niðurstöðu í málum. Í þeim umræðum var reynt að tryggja að öll sjónarmið kæmust að.“

Ný heildarsamtök

„Ég er þeirrar skoðunar að við hestamenn ættum að eyða púðri í að kanna hvort ekki sé rétt að stofna ný heildarsamtök hestamanna. Ekki að sameina þau félög sem fyrir eru, heldur að skilgreina hestamennskuna upp á nýtt og byggja ný heildarsamtök á nýjum grunni. Hugsa málið einfaldlega upp á nýtt. Það hafa orðið miklar breytingar í hestamennskunni á síðustu áratugum. Hrein atvinnumennska hefur vaxið mikið en mörkin á milli atvinnu- og áhugafólks eru samt sem áður víða óljós. Við erum með margvíslegan félagsskap í kringum hestamennskuna. Ástæður þess að fólk skráir sig í félag af einhverju tagi eru oftast hagsmunir og réttindi en líka bara skemmtunin. Einhver hópur hestamanna tekur reyndar engan þátt í neinu félagsstarfi sem er bagalegt. Nú fara ekki allir hagsmunir allra hestamanna saman. Við eigum hins vegar mjög mörg mikilvæg mál sem nauðsynlegt er að standa saman um og til þess þurfum við sameiginlegan vettvang. Það er togstreita í hestamennskunni, sem virðist eiga rætur í gömlum ágreiningsmálum. Til að komast út úr því  getur verið gott að reyna nýjar leiðir.“

Sjá ítarlegt viðtal við Ágúst Sigurðsson í Hestar og hestamenn sem kom út 18. febrúar.