miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vill leggja áherslu á nýliðun og kynningarmál

7. nóvember 2014 kl. 15:05

Hnokki frá Reykhólum og Lárus Ástmar Hannesson

„Við þurfum að hugsa um fleira en Landsmót,“ segir Lárus Ástmar sem býður sig fram til formanns LH.

,,Ég tel mig geta komið að gagni við það verkefni sem framundan er," segir Lárus Ástmar Hannesson sem býður sig fram til formanns Landssambands hestamannafélaga.

Lárus Ástmar stundar hestamennsku með fjölskyldu sinni hjá hestamannafélaginu Snæfelling. Hann hefur komið víða við í hestamennsku, hann er hrossaræktandi, útskrifaður frá Hólaskóla og hefur unnið við tamningar hér á landi og  í Þýskalandi. Hann var lengi formaður Gæðingadómarafélagsins og var formaður Snæfellings í 4 ár.

Lárus segist hafa tekið ákvörðun um framboð sitt, í samvinnu við fjölskyldu sína, eftir mikla hvatningu. Hann segir stjórn LH þurfi að leggja áherslu á samvinnu, kynningarstarf og nýliðun í hestamennsku. ,,Við þurfum að hugsa um fleira en Landsmót, en um leið að leysa landsmótsmálin í sem mestri sátt. Það er sjálfsagt enginn sem fær allar sínar væntingar uppfylltar í þeirri stöðu sem kominn er upp."

Lárus er þriðji frambjóðandi til formanns LH. Áður höfðu Kristinn Hugason og Stefán Ármannsson tilkynnt framboð sín. Kosningar fara fram á framhaldsþingi á morgun.