sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Viljinn er mikilvægur en hefur of hátt vægi að mati Guðlaugs

24. júní 2011 kl. 14:49

Viljinn er mikilvægur en hefur of hátt vægi að mati Guðlaugs

Nú er Landsmót er um það bil að bresta á. Fá gestir þess að virða fyrir sér afrakstur kynbótasýninga vorsins. Mikill fjöldi hrossa hefur komið til dóms og verður spennandi að fylgjast með þeim bestu í brautinni á Vindheimamelum.

Eiðfaxi hafði samband við Guðlaug Antonsson hrossaræktarráðunaut BÍ og lagði fyrir hann nokkrar spurningar:

Hve mörg hross mættu til dóms, og hvernig skiptist sá hópur í hryssur og stóðhesta?

Ég hef ekki haft mikinn tíma til að taka þetta nákvæmlega saman. Við snöggan yfirlestur sýnist mér þetta þó vera 1284 hross sem komið hafa til fullnaðardóms og er skiptingin 411 stóðhestar og 873 hryssur.

Nú hafa margir það á tilfinningunni að klárhrossin eigi erfitt uppdráttar í dag, er einhver stoð undir því?

Það tel ég ekki vera. Það er fráleitt að þetta eina prósent sem fært var yfir á skeið við síðustu vægisbreytingar ráði einhverjum úrslitum þar um. Lækkunin sem gerð var á vægi vilja og geðslags ætti að koma jafnt niður á klárhrossum og alhliðahrossum. Þannig að þá er það bara aukna vægið á fetinu sem stendur eftir og á ég bágt með að trúa því að klárhrossin fari verr út úr þeirri hækkun. Þá má geta þess að af þeim 249 hrossum sem náðu landsmótslágmörkum eru 41 með 5,0 fyrir skeið og ef tekin eru saman þau sem ná 5,0 – 6,5 fyrir skeið, sem er að mínu mati ekki vekurð að gagni þá eru það alls 60 hross eða um fjórðungur hrossanna sem náðu landsmótslágmörkunum sem verður að teljast allgott hlutfall.

Ertu ánægður með kerfið eða finnst þér breytinga þörf?

Ekkert kerfi er fullkomið og við verðum ætíð að vera á tánum yfir því með hvaða hætti við getum bætt matið á ræktunargripum framtíðarinnar því um það á málið að snúast en ekki stundargróða. Ég er enn á því að við síðustu vægisbreytingar hefði verið hyggilegt að ganga lengra í lækkun á vægi vilja og geðslags og auka heldur vægi hinna einstöku gangtegunda.

Ég þykist þess full viss að þegar þú og ég veljum stóðhest á hryssuna okkar þá lítum við mun meira til þess hvaða einkunn hann hefur fyrir t.d. tölt og skeið heldur en hvort hann er með 8,5 – 9,0 eða 9,5 fyrir vilja. Hestur sem fær 8,5 fyrir vilja er vel viljugur og vel ásættanlegur að því leiti. En við gerum töluverðan greinarmun á því hvort hestur er með 8,5 eða 9,5 fyrir tölt eða skeið. Viljinn er og verður vandasamasti eiginleikinn að dæma og hefur að mínu mati enn í dag of hátt vægi. Svo öllum misskilningi sé eitt þá er hann að sjálfsögðu einnig einn allra mikilvægasti eiginleikinn, þó matið sé nokkrum vandkvæðum háð.

Meira í nýjasta tölublaði Eiðfaxa.