þriðjudagur, 19. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vígalegir töffarar, fótaburður og fas-

26. apríl 2010 kl. 09:55

Vígalegir töffarar, fótaburður og fas-

Erilsamt hefur verið hjá hjónunum Sigurði V. Matthíassyni og Eddu Rún Ragnarsdóttur í allan vetur, svo vægt sé til orða tekið, enda þjálfa þau stíft fyrir kynbótasýningarnar sem framundan eru og úrtöku fyrir Landsmótið. Gestagangur er einnig mikill því söluhrossin eru ófá sem renna í gegnum hesthúsið þeirra í Víðidalnum, auk þess sem kennslan tekur drjúgan tíma.  Spennandi hestar eru í húsinu.

 
„Við stefnum með talsverðan fjölda í dóm og keppni,“ segir Siggi Matt, sem er á hlaupum, en gefur færi á spjalli í örskotsstund. „Graðhestarnir eru margir flottir hér í hesthúsinu. Einn þeirra er Byr frá Mykjunesi, efnilegur Kjarkssonur sem fékk 8,41 fyrir byggingu í fyrra, þá aðeins 4 vetra. Við erum líka með vígalegan alhliða Klettsson á sjötta vetur sem er í eigu tengdaföður míns, Ragnars Hinrikssonar. Skjóttur Rökkvasonur, einnig á sjötta vetur, er mjög lofandi og svo má nefna gæðinginn Bruna frá Skjólbrekku, sem líklega verður stefnt með bæði í kynbótadóm og A-flokk á LM. Kalli frá Dalvík verður stefnt með í tölt og B-flokk, Birtingi frá Selási verður stillt upp í A-flokki í fyrsta skipti og sama er að segja um Töfra frá Hafragili, sem er flottur hestur og flugvakur.“
 

Þá eru aðeins örfáir gæðingar upp taldir, en einnig eru í hesthúsinu Leiknisdóttir á sjötta vetur, sögð flott klárhryssa, nokkrar ungar 4 vetra merar, þar á meðal ein mjög efnileg undan Svaka frá Miðsitju, tveir 5 vetra folar undan Hugin frá Sauðárkróki, sem stefnt er með í dóm, og systkinin Verona frá Árbæ, undan Aroni frá Strandarhöfði, og Viktor frá Feti, undan Þóroddi frá Þóroddsstöðum. Þau síðast nefndu eru sammæðra, afkvæmi gæðingamóðurinnar Vigdísar frá Feti, sem einnig er móðir Vilmundar frá Feti. „Þá eru ónefndir tveir Álfasteinssynir, þeir Askur frá Ketilsstöðum, sem þegar hefur verið dæmdur með 8,16 fyrir sköpulag, og Smekkur frá Högnastöðum. Smekkur er sonur gæðingshryssunnar Gerplu frá Högnastöðum, sem var hæst dæmd í flokki hryssna 6 vetra og eldri á Landsmótinu 1990,“ segir Siggi Matt, og er farinn að ókyrrast, enda dagurinn að styttast í annan endann og tíminn dýrmætur.


Í þeim töluðu orðum kemur Edda Rún aðvífandi og ekki er hennar hestakostur síðri. „Ég stefni með Hreim frá Fornusöndum í A-flokk, en hann er mitt uppáhald og hefur aldrei verið í betra stuði en nú,“ segir hún. „Síðan vonast ég til að geta teflt fram nýjum hesti í A-flokk, Sæssyninum Súkkó frá Kálfhóli 2. Hann er mikill töffari og gríðarlega efnilegur fimmgangshestur með miklar hreyfingar. Þetta er allt á réttri leið, en næstu vikur leiða í ljós hvort allt smelli hjá okkur. Svo er ég með tvær drottningar sem stefnt er með dóm, þær Ísafold frá Kommu og Gerplu frá Ólafsbergi, en það er kraftmikil 1. verðlauna meri undan Glampa frá Vatnsleysu. Gerpla er með jafnar gangtegundir, mikinn fótaburð og fas. Allt eru þetta mjög spennandi hestar sem verið erum með,“ segir Edda Rún hress að vanda og er rokin.


Kvefpestin hefur hægt nokkuð á þjálfunarhraðanum hjá þeim Eddu Rún og Sigga og mátti sjá talsvert af hestunum klædda í ábreiður, með nefrennsli og hósta. „Þeir hestar sem sýna einkenni eru í fríi og við leyfum þeim að jafna sig vel. Það er lán í óláni að pestin kom núna en ekki í miðjum kynbótasýningum og stórkeppnishaldi. Við vonum að þetta gangi yfir sem fyrst, þannig að bæði hestar og menn geti tekið gleði sína á ný,“ segir Siggi að lokum.

 

www.landsmot.is