fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Viðurkenningar á Hrossaræktarráðstefnu

5. nóvember 2019 kl. 23:33

Verðlaunahafar á Hrossaræktarráðstefnu árið 2019 ásamt Sveini Steinarssyni formanni Fhb

Á Hrossaræktarráðstefnunni, sem fram fór á Hótel Sögu síðastliðna helgi, voru viðurkenningar og verðlaun veitt fyrir hin ýmsu afrek, sem unnin voru á árinu.

Ráðstefnan var vel sótt, Sveinn Steinarsson, formaður Fhb, setti hana og fól Sveini Ragnarssyni að stýra ráðstefnunni. Halla Eygló Sveinsdóttir fór yfir hrossaræktarárið í fjarveru Þorvalds Kristjánssonar. Heimir Gunnarsson kynnti þær breytingar sem væntanlegur eru á vægisstuðlum í kynbótadómi og í kjölfarið urðu umræður þar sem Heimir sat fyrir svörum.

Verðlaun og viðurkenningar voru veitt fyrir góðan árangur á árinu.

Má þar nefna þau fjórtán ræktunarbú sem hlutu tilnefningu til ræktunarbús ársins og þær heiðursverðlaunahryssur sem þann heiður hlutu í ár. Mannleg mistök urðu reyndar til þess að hryssan Fold frá Auðsholtshjáleigu var ekki verðlaunuð á ráðstefnunni, en Fagráð í hrossarækt sendi frá sér yfirlýsingu á mánudaginn þar sem þessi leiðinlegu mistök voru leiðrétt. Það er Elding frá Torfunesi sem efst stendur í ár.

Á ráðstefnunni voru viðurkenningar veittar fyrir hæstu hæfileikaeinkunn ársins en það er úrvalshryssan Viðja frá Hvolsvelli sem hæsta hæfileika einkunn hlaut í ár, 9,00. Viðja er átta vetra gömul undan Frakki frá Langholti og Vordísi frá Hvolsvelli. Ræktendur eru Ásmundur Þór Þórisson og Helga Friðgeirsdóttir en eigendur eru Bjarni Jónasson og Egger Meier Anja, Það var Bjarni Jónasson sem sýndi hryssuna. Viðja hlaut meðal annars einkunnina 9,5 fyrir vilja og geðslag og einkunnina 9,0 fyrir tölt, brokk, skeið, fegurð í reið og hægt tölt.

Þá voru verðlaun veitt fyrir hæstu aldursleiðréttu aðaleinkunnir ársins,  bæði í flokki klárhrossa og alhliðahrossa, áverkalausa.

Hæstu aldursleiðréttu aðaleinkunn ársins í flokki klárhrossa hlaut hinn glæsilegi Ísak frá Þjórsárbakka. Ísak hlaut fyrir sköpulag, hvorki meira né minna, en 8,84. Þar ber hæst einkunnin 9,5 fyrir háls, herðar og bóga. Þá hlaut hann 9,0 fyrir höfuð og samræmi. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,45 þar af 9,5 fyrir tölt og fegurð í reið og 9,0 fyrir stökk, vilja og geðslag og hægt tölt. Aðaleinkunn hans er 8,61.
Ísak er undan Herkúles frá Ragnheiðarstöðum og Eldingu frá Hóli. Ræktandi er Haraldur Þorgeirsson en eigandi er Þjórsárbakki ehf. Knapi á honum var Helga Una Björnsdóttir.

Hæstu aldursleiðréttu aðaleinkunn ársins í flokki alhliðahrossa hlaut gæðingurinn Draupnir frá Stuðlum.  Hann hlaut fyrir sköpulag 8,74 þar af 9,0 fyrir eiginleikanna háls,herðar og bóga, bak og lend og samræmi. Fyrir hæfileika hlaut Draupnir, 8,97. Þar ber hæst einkunnin 9,5 fyrir vilja og geðslag og einkunnin 9,0 fyrir tölt, brokk, skeið, fegurð í reið og hægt tölt. Faðir Draupnis er Kiljan frá Steinnesi og móðir hans er Þerna frá Arnarhóli. Ræktendur Draupnis eru Edda Björk Ólafsdóttir og Páll Stefánsson en þau eru jafnframt eigendur ásamt Austurás hestum ehf. Sýnandi Draupnis var Árni Björn Pálsson.