miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Viðtal við Sigvalda Lárus og Ólaf Andra: "Skothelt teymi"-

10. febrúar 2011 kl. 12:38

Viðtal við Sigvalda Lárus og Ólaf Andra: "Skothelt teymi"-

Eiðfaxi sló á þráðinn til bræðranna Sigvalda Lárusar og Ólafs Andra Guðmundssona. Báðir eru þeir reiðkennarar að mennt og hafa vakið athygli fyrir prúða og fágaða reiðmennsku. Þeir munu koma fram á afmælishátíð FT þann 19. febrúar nk. og fræða gesti um töltþjálfun.

Hverjir eru mennirnir?
Sigvaldi: Ég heiti Sigvaldi Lárus og er 26 ára Dalamaður sem flutti suður um fermingaraldur. Pabbi stundaði tamningar og við bræðurnir höfum því verið í hestum frá blautu barnsbeini.
Ólafur: Ég er Ólafur Andri og er 24 ára. Við erum sveitastrákar sem lifum báðir og hrærumst í hestunum.
Sigvaldi: Ég er búin að flakka um allt land að vinna, hef verið í Skagafirði, Kópavogi, sunnan og vestan. Ég útskrifaðist sem reiðkennari frá Hólum í vor.
Ólafur: Ég útskrifaðist árinu á undan og starfa í dag í Austurás, rétt fyrir utan Selfoss. Auk þess er ég á leiðinni til Noregs að kenna. Kærastan mín, Bylgja Gauksdóttir, er líka í þessu og fjölskyldur okkar eru á kafi í ræktun. Markmiðið er að hafa alltaf gagn og gaman af hestamennsku og bæta mig bæði í færni og þekkingu.

Hvað geta áhorfendur búist við að læra sýnikennslunni ykkar?
Sigvaldi: Við munum fjalla um gangtegundina tölt því það er sú gangtegund sem flestir almennir hestamenn hafa gaman af. Okkur langar að sýna hvernig við þjálfum tölt, hvernig við byggjum það upp og getum bætt það.
Ólafur: Við viljum koma með gagnlega punkta sem getur hjálpað fólki þegar heim er komið. Við viljum sýna hvernig við byggjum upp hestinn, til að hjálpa honum með rétta líkamsbeytingu með það að markmiði að áhorfendur hafi betri hugmyndir hvað það geti gert til að gert hestinn sinn betri á tölti.
Sigvaldi: Við munum mæta með klárhest og alhliðahest í sýnikennsluna svo fólk sjái mun á þessum tveimur týpum.
Ólafur: Það eru ákveðnar áherslubreytingar, hvernig þessum tveimur er riðið á tölti. Við viljum sýna þann fjölbreytileika, enda eru margar leiðir sem virka og velja þarf aðferðir á forsendum hestsins.
Sigvaldi: Við erum samrýmdir með svipaðar skoðanir og viljum koma á framfæri hvernig við hugsum á auðveldan og skiljanlegan máta.
Ólafur: Við þekkjum hvorn annan eins og lófann á okkur. Ég held við séum skothelt teymi.

En það hlýtur einhvers staðar að leynast bræðrarýgur?
Sigvaldi: Við styðjum ekki sama lið í Enska boltanum.
Ólafur: Já, ég er Poolari og hann heldur með Arsenal. Silli villist þar. Hann er eitthvað að misskilja.

Hvor er betri kennari?
Sigvaldi: Ég er klárlega mun öflugri!
Ólafur: Leyfum áhorfendum að meta það.

Hvor er fyndnari?
Ólafur: Ég er miklu fyndnari. Silli er skynsamari.
Sigvaldi: Góð spurning. Látum áhorfendur svara henni.

Hver er fyrsta minning ykkar úr hestamennskunni?
Ólafur: Við erum í Búðardal að ríða út, moka og gefa. Pabbi er að temja og járna. Ég held löppum fyrir hann.
Sigvaldi: Þegar ég var pjakkur og fékk að fara fyrsta skipti einn út á hestbaki á henni Stjörnu. Ég man eftir að það var búið að segja mér hvað ég mætti fara langt, en ég stalst að sjálfsögðu lengra en ég mátti.

Besti töltari sem þú hefur séð?
Sigvaldi: Lydía frá Vatnsleysu var algjör yfirburðartöltari. Þar sameinuðust kraftur, rými og fótaburður.
Ólafur: Hátíð frá Úlfsstöðum, 10 fyrir tölt.

Besti hestur sem þú hefur setið?
Sigvaldi: Hula frá Hamraendum er meri sem kenndi mér mikið. Hún er góð alhliðahryssa og er eins og ég vil hafa hrossin. Hún er undan Baldri frá Bakka og er núna ræktunarmeri hjá okkur.

Besti töltari sem þú hefur setið?
Ólafur: Mér dettur fyrst í hug systurnar Hnota frá Garðabæ og Grýta frá Garðabæ. Ég fékk líka einu sinni að prófa Vöku frá Hafnafirði hjá Snorra Dal.

Eiðfaxi þakkar þeim bræðrum fyrir samtalið og óskar þeim góðs gengis á afmælishátíð FT.