miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Viðar vill sjá fleiri mót í gæðingafimi-

11. febrúar 2011 kl. 12:21

Viðar vill sjá fleiri mót í gæðingafimi-

Viðar Ingólfsson og Tumi frá Stóra-Hofi sigruðu gæðingafimi Meistaradeildarinnar í fyrra með glæsibrag.

“Í úrslitum var sýning Viðars og Tuma alveg hreint stórfengleg og voru ófáir áhorfendur sem fengu gæsahúð á meðan á henni stóð og enduðu þeir sýninguna á spænska sporinu. Þeir félagar uppskáru 7,87 í einkunn og efsta sætið,” segir um árangur Viðars og Tuma á heimasíðu Meistaradeildar.

Eiðfaxi sló á þráðinn til Viðars og hleraði stemninguna fyrir kvöldið.

 “Ég mun mæta með fyrstu verðlauna stóðhestinn Rösk frá Sunnuhvoli, undan Rökkva frá Hárlaugsstöðum,” segir hann um hestakost kvöldsins.

Spurður hvort áhorfendur gætu búist við einhverjum óvæntum snúningum frá honum í kvöld vildi hann lítið gefa upp. “Þetta verður eitthvað aðeins frjálslegra núna,” segir hann, nokkuð leyndardómsfullur.

Gæðingafimin er mikil áskorun fyrir knapana þar sem samspil manns og hest skiptir miklu máli. Dómarar horfa til fjölda og erfiðleika æfingana og hvernig keppendaparinu tekst til, hvernig æfingar blandast saman við gangtegundir, fjölhæfni og styrkleiki gangtegunda auk flæði sýningarinnar. Knapar þurfa að sýna að lágmarki þrjár gangtegundir og fimm fimiæfingar og er einungis ein skylduæfing, en hún er opinn sniðgangur á tölti. Lengd sýningar má vera að hámarki þrjár og hálf mínúta.

Inntur eftir því hvað það væri sem gerði gæðingafimina áhugaverða keppnisgrein segir Viðar það liggja í velþjálfuðum hrossum. “Hestarnir þurfa að vera gríðalega vel undirbúnir, vel tamdir og þjálfaðir. Þetta er frábær grein sem reynir mikið á knapa og hest og ég myndi í raun vilja sjá staðið fyrir fleiri mótum í gæðingafimi,” segir Viðar að lokum.

Eiðfaxi óskar honum góðs gengis í kvöld.