fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Við hesthúshorn Sleipnis-Guðni Ágústsson skrifar

28. febrúar 2011 kl. 11:03

Við hesthúshorn Sleipnis-Guðni Ágústsson skrifar

Í ljósi þess að reiðhöll Sleipnis er komin í notkun bæði í námsskeiðahaldi og ýmiskonar uppákomum og reiðmennsku,...

er eðlilegt að menn spyrji eftir verklokum og vígsluhátíð með söng og gleði. Frá því er rétt að skýra að upp kom vandamál með þakleka sem tefur heildarverkið og verið er að rannsaka orsakir lekans. Við bindum vonir við að Sleipnismenn og seljendur og hönnuðir reiðhallarinnar BM Vallármenn komist sem fyrst að sameiginlegri niðurstöðu. Hvað er hvurs og hvurs er hvað. Höllin verður ekki einangruð og ekki gengið frá ýmsum öðrum atriðum fyrr en þetta er komið á hreint og í lag.  
Flóamenn eru heiðarlegir í viðskiptum og hafa að leiðarljósi í lífi sínu „rétt er rétt.“ Þeir eru engir mútumenn eins og Marðarkenningin hélt fram á dögunum. Engum ummælum hef ég reiðst jafn mikið og þessum um langa hríð,enda ekki skaplaus enn. Forfeður okkar Flóamanna hefðu illa unað sínum hlut. Þorgils Örrabeinsstjúpur í Traðarholti mikil hetja og fylginn sér sá sem hestinn Illing drap og síðar þrælinn Bjálfa hefði ekki tekið svona stóryrðum þegjandi. Nú er öldin önnur menn komast upp með bjálfaskap og  spara ekki gífuryrðin. Þrátt fyrir einhverjar tafir um verklok hallarinnar halda Sleipnismenn ótrauðir áfram með að undirbúa stórverkefni sumarsins sýningar og heimamót Landsmót á Vindheimamelum og HM  í Austurríki.  
Reiðhallirnar hafa sannað gildi sitt ein slík var byggð á Flúðum og hestamannafélögin Smári og Logi  eiga hana skuldlausa. Hverja einustu helgi fram til vors eru hátíðir sýningar og uppákomur í reiðhöllinni þeirra. Smáramenn og  Logamenn hestamannafélögin í Skeiða ,Gnúpverjahreppi og Hrunamannahreppi og svo Biskupstungum sameinuðu styrk Landbúnaðarráðuneytisins og með til komu Hvítárbrúarinnar byggðu þeir eina reiðhöll staðsetta á Flúðum. Félagsmenn lögðu fram ómælda sjálfboðavinnu við bygginguna.
Já brýr hafa jákvæð áhrif og Hvítárbrúin nýja sem tók ein tuttugu ár að koma í framkvæmd sannar gildi sitt og mun styrkja Árnesþing ekki síst  upp til fjallanna. Uppsveitarmenn eru frægir hestamenn og gæðingar þeirra eru í fremstu röð „ég veit hestinn minn traustan og mig heimvonin gleður,“ sagði Eiríkur á Hæli.
Enn man ég frá æsku minnar dögum  Blæ Hermanns í Langholtskoti  og Neista Jóns í Skollagróf eða Gulltopp Jóns í Eystra-Geldingaholti og Reyni Þorsteins á Húsatóftum,þvílíkir hestar og hestamenn í minningunni. Þeir sem koma í reiðhöllina á Flúðum sjá að uppsveitarmenn rækta enn afburða hross og eru snjallir keppnismenn. Svo eiga þeir sér öflugan sendiherra hann Sigurð Sigmundsson sem rekur sitt eigið sendiráð hann skýrir frá afrekunum í máli og myndum. Siggi í Syðra hefur unnið hestamennskunni og héraði okkar ómælt gagn með myndavélinni sinni. Hann hefur skráð sögu í gegnum linsuna í  meira en hálfa öld. Myndirnar hans varðveita ekki bara minningu um glæsta gæðinga heldur fólk,andlit og atburði sem yljar manni um hjartarætur.  Nú sendi Siggi mér myndina af Blæ einum fræknasta  hesti landsins á sinni tíð og það er eigandinn Hermann heitinn í Langholtskoti sem situr hann.
                                                                              Guðni Ágústsson
                                                                          gudni.ag@simnet.is