miðvikudagur, 24. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þétt setin Faxaborg

30. mars 2014 kl. 20:00

Vesturlandssýningin

Vesturlandssýningin fór fram í gærkvöldi og var reiðhöllinni í Borgarnesi þétt setin. Það seldist upp á sýninguna og þurfti að vísa nokkrum frá. Sýningin var vel framkvæmd og gengu hlutirnir smurt fyrir sig. Mikil fjölbreytni var á sýningunni en þarna var allt frá klárhestum yfir í alhliðahesta, hátt dæmdir stóðhestar og hryssur, flottar skrautreiðar hjá börnum, ungmennum og fullorðnum. 

Boðið var upp á ræktunarbúsýningar frá Hrísdal, Skáney og Skipaskaga en einnig komu gestir að norðan, Grafarkot. Í hópi Hrísdals voru þrír graðhestar Hrynur, Steggur og Nökkvi. Hrynur var glæsilega sýndur af Ásdísi Ólöfu Sigurðardóttir. Glæsilegur hestur, mikið fas og mikið rými. Einn af eftirminnilegustu hestum sýningarinnar. Knapi á Stegg var Siguroddur Pétursson en Steggur sló í gegn á Fjórðungsmóti Vesturlands í fyrra. 

Hrynur frá Hrísdal og Ásdís Ólöf Sigurðardóttir

Steggur frá Hrísdal og Siguroddur Pétursson


Nokkrir afkvæmahópar komu einnig fram á sýningunni. Sýnd voru afkvæmi Auðs frá Lundum II og Glyms frá Innri-Skeljabrekku. Í hópi Glyms voru Ægir frá Efri-Hrepp, Blængur frá Skálpastöðum, Fura frá Borgarnesi og Grímur frá Borgarnesi. Ægir frá Efri-Hrepp var góður en knapi á honum var Jakob S. Sigurðsson en Jakob keppti á Ægi í gæðingaskeiðinu í Meistaradeildinni með ágætum árangri. Knapi á Grím var Agnar Þór Magnússon og sýndu þeir snilldar takta á skeiði. Agnar sýndi einnig annað hross á sýningunni hryssuna Sigyn frá Steinnesi, kröftug hryssa og ekki skemmdi liturinn fyrir en hún er moldótt. Sigyn var efst í fjagra vetra flokknum á Fjóðrungsmóti Vesturlands í fyrra.


Ægir frá Efri-Hrepp og Jakob S. Sigurðsson

Agnar Þór Magnússon og Sigyn frá Steinnesi

Í afkvæmahópi Auðs voru þrjú hross; Vörður frá Sturlureykjum 2, Júlía frá Hamarsey og Gló frá Hvítárvöllum. Júlía var sýnd af Jakobi en Júlía er 5 vetra. Glæsileg hryssa með mikla útgeislun. Greinilega mikill gæðingur þar á ferð. 

Jakob S. Sigurðsson og Júlía frá Hamarsey

Hrafnhildur Guðmundsdóttir og Vörður frá Sturlureykjum 2

 

Sýndir voru tveir stóðhestar sem verða til notkunar á vegum Hrossaræktarsambands Vesturlands, þeir Hringur frá Gunnarsstöðum og Sjálfur frá Austurkoti. Báðir frábærir klárhestar en þó nokkuð ólíkir. Knapi á Sjálfum var Páll Bragi Hólmarsson en Sjálfur hefur hlotið meðal annars 9,5 fyrir hægt stökk. Hringur var sýndur af Þórarni Ragnarssyni en Hringur býr yfir frábærum gangtegundum, mikilli mýkt og miklu fasi.

Þórarinn Ragnarsson og Hringur frá Gunnarsstöðum


Sjálfur frá Austurkoti og Páll Bragi Hólmarsson


Jakob S. Siguðrsson lokaði síðan sýningunni á Skýr frá Skálakoti. Glæsilegur alhliða hestur. Mörg góð atriðið voru á sýningunni og vill Blaðamaður benda á aðeins er stiklað á stóru.  

Skýr frá Skálakoti og Jakob S. Sigurðsson