miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verum stolt af upprunanum

Gísli Guðjónsson
25. janúar 2019 kl. 21:00

Hestar

Grein þessi birtist í jólablaði Eiðfaxa og er hugvekja um íslenskar og erlendar reiðhefðir.

Íslenski hesturinn er stolt okkar og yndi. Hann hefur lifað með þjóðinni frá landnámi og þraukað í gegnum náttúruhamfarir og kulda. Hann er samofinn lífsafkomu þjóðarinnar. Nafnið þarfasti þjónninn sæmir honum vel en án hans hefði landið að öllum líkindum verið óbyggilegt. Íslendingar lærðu að nýta sér hestinn til vinnu og útreiða og íslensk reiðhefð þróaðist. Nú á seinni tímum hafa hestamenn sótt sér mikla þekkingu í erlendar reiðhefðir og margt hefur breyst til betri vegar. En megum við ekki vera stolt af okkar uppruna og eigum við okkur ekki íslenskar fyrirmyndir þegar að reiðmennsku kemur.

Styrkur og úthald

Íslenski hesturinn hefur fylgt þjóðinni frá landnámi, fyrstu rúmlega þúsund árin var hann þarfasti þjónninn eða allt fram á vélaöld. Hann þraukaði af erfiðaða lífsbáráttu við móður náttúru. Náttúruvalið sá um að einungis harðgerustu og sterkustu gripirnir lifðu af. Hann var notaður til vinnu, skemmri og lengri ferðalaga svo eitthvað sé nefnt. Margur íslendingur fyrri alda átti líf sitt að þakka fótfimi og úthaldi hestsins. Margar sögur eru til um hvernig menn börðust í gegnum váleg veður til að sækja ljósmæður, lækna eða aðra hjálp í erfiðum aðstæðum á norðurhjara veraldar. Forfeður okkar hljóta að hafa verið snjallir hestamenn og hafa þurft að hugsa af alúð um þennan vin sem engan sveik á raunastund. Þó að talið sé að lítil markviss ræktun eða ræktunarstefnur hafi verið á landinu fyrr á öldum að þá má samt reikna með því að menn hafi haft skilning á því hvaða hestar hentuðu vel til vinnu og útreiða.  Íslendingar fyrri alda lögðu metnað í það að vera vel og fallega ríðandi. Eiginleikarnir úthald, styrkur og hversu mjúkur hesturinn var ásetu hafa verið ein af aðalatriðunum við val á reiðhesti.

Af hverju íslenskan hest

Með tilkomu vélaaldarinnar varð íslenski hesturinn að mestu óþarfur til vinnu. Hestamenn notuðu hann þó áfram til smalamennsku og gera að stórum hluta enn þann dag í dag. Það þekkja þeir sem ríða til fjalls á vel þjálfuðum hesti að hann á auðvelt með að bera knapa sinn um veglaust land og þar spilar stórt hlutverk hversu fótfimur, þíðgengur, heilsuhraustur og úthaldsmikill hann er. Hermann Árnason, hinn snjalli ferðagarpur, hefur sýnt fram á það að sé hugsað vel um ferðahesta þá geta þeir farið í langferðir komnir vel yfir tvítugt.
Stærstur hluti hestamanna stundar ekki útreiðar í atvinnuskyni eða með það í huga að taka þátt í einhverskonar keppnum eða sýningum, heldur til almennra útreiða og þá til styttri eða lengri ferðalaga. Aðalsmerki íslenska hestsins er að margra mati einmitt það sem prýða á frístundahestinn og á að vera sú vara sem við markaðssetjum bæði heima og erlendis. Í loka verkefni greinarhöfundar við búvísindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands var m.a. reynt að skilgreina hvað prýða þarf frístundahestinn og segir þar. „Því má segja að það sem einkennir frístundahross sem sérstakan flokk hrossa sé að þau séu umfram annað þjál og spennulaus, þau hafi þægilegan vilja; ekki ásækin en séu þó ekki löt eða körg. Einnig að þau séu jafnlynd þannig að þeir sem stunda hestamennsku sem frístundaiðju geti gengið að hrossunum nokkuð vísum sem viðfangi. Gangeiginleikar séu með þeim hætti að knapanum líði vel á hestinum.“  
Íslenski hesturinn er tiltörulega lítill sé miðað við mörg önnur hestakyn en er þó fyrir fullorðna. Með því er átt við að hann er sterkur miðað við stærð og fer fremur létt með það að bera fullvaxið fólk. Við skulum því ekki gleyma því að stærð hans er eitt af því sem gerir hann vinsælan og skapar honum sérstöðu. Þessir eiginleikar sem hér á undan eru taldir eru einmitt það sem við viljum að prýði hestinn okkar, eða hvað?

Áhrif erlendis frá

Nú á seinni tímum, nánar tiltekið seint á síðustu öld, fóru framsæknir knapar að leita þekkingar út fyrir landsteinana og þá aðallega í þær reiðhefðir sem þekkjast á meginlöndum Evrópu. Má þar nefna lönd eins og Þýskaland og Spán. Þessi þekkingarlöngun hefur skilað miklum framförum í reiðmennsku hérlendis og má nefna marga af snjöllustu reiðmönnum samtímans því til handa. Þeir sóttu sér þekkingu í klassíska reiðmennsku með tilheyrandi góðum áhrifum á reiðmennsku á íslenska hestinum. Vert er þó að hafa í huga að reiðhefðir áður talinna þjóða urðu til í hernaðarlegum tilgangi. Hestar í þessum löndum voru leiktæki aðalsmanna en ekki reiðhestar almúgans. Meginmunurinn á reiðhefðum okkar og þessarra þjóða er þó sá að okkar stolt er íslenskur hestur sem býr yfir fimm gangtegundum, þar sem gangtegundirnar tölt og skeið eru hans sér einkenni. Þeir hestar sem henta best í klassískri reiðmennsku eru þrígangarar þ.e. búa eingöngu yfir feti, brokki og stökki. Það er álit greinarhöfundar að framtíð íslenska hestsins liggi ekki í því að verða „lítill“ dressúr hestur, heldur frekar að ala á sérstöðunni sem er geðgóður, fótviss, þíður, rúmur ganghestur. Það er þó hverjum og einum í sjálfvald sett hvaða reiðmennskur höfða til hans og það er öllum frjálst hvert þeir sækja sínar fyrirmyndir. Fegurðin í íslands hestamennskunni er sú að hún er í sífelldri endurnýjun og mótun. Það er einnig okkar styrkur að við höfum ekki fastmótaðar hefðir, en getum samt haldið í okkar sérkenni.

Íslenskt! já takk

Margþætt hlutverk íslenska hestsins hefur skapað honum vinsældir um heim allan. Við Íslendingar megum þó ekki skammast okkar fyrir það hvaðan við komum. Með þessu er átt við það að stundum virðist það svo vera að allt það sem aðrar reiðhefðir hafa upp á að bjóða telst betra en þær hefðir sem við sjálf eigum. Við Íslendingar eigum fyrirmyndir sem tömdu sína hesta vel og voru þekktir fyrir það. Þessu til stuðnings má nefna nefna Jón Ásgeirsson frá Þingeyrum og Hesta-Bjarna.  Með tilkomu vélaldarinnar gerðist það að hesturinn vék fyrir öðrum farartækjum og því var hætta á að við glötuðum okkar reiðhefð. Við upphaf vélaaldarinnar áttum við þó hestamenn sem voru frægir um allt land fyrir það að vera vel ríðandi og sátu vel á hestbaki má þar nefna Höskuld Eyjólfsson sem kenndur er við Hofsstaði í Hálsasveit en bjó einnig að Saurbæ í Villingaholtshreppi. Einnig áttum við fræðimenn sem fylgdust með þróuninni í reiðmennsku þegar vélaöldin gékk í garð og vildu sporna við þeirri þróun,Gunnar Bjarnason og Bogi Eggertsson fjalla einmitt um þetta atriði í bókinni Á Fáki: „Margir eru þeirrar skoðunar, að afturhallandi áseta hafi mikla þýðingu fyrir töltið. Þetta kann að geta átt sér stað stöku sinnum, en oftast mun réttara að sitja beinn, en færa sig aftur eða fram í hnakknum eftir því, sem menn finna, að jafnvægi hestsins krefst. Svipað gildir um stöðu fótanna, þeir verða að flytjast um gjarðlínu hnakksins eftir því, sem manninum finnst það hafa áhrif á hreyfingar hestsins, en það er aldrei ástæða til að flytja fæturna mjög langt frá réttri stöðu. Ýmsum íslenzkum hestamönnum hættir við að hafa fæturna allt of framarlega á tölthestum. Slíkt er óvani og alveg sérstök óprýði.“  Vert er að hvetja fróðleiksþyrsta hestamenn til að lesa og kynna sér þær heimildir sem þó eru til skrifaðar um hestamennsku fyrri tíma á Íslandi.

Framtíðin er okkar

Hestamenn munu vonandi halda áfram að leita sér þekkingar út fyrir landsteinana og er það vel, en hesturinn er og verður íslenskur áfram með þeim sérkennum sem honum fylgja. Reiðstíllinn verður því alltaf að vera þannig að hann henti okkar íslenska gæðing sem getur allt. Ef við vitum ekki hvaðan við erum að koma, hvernig eigum við þá að vita hvert við erum að fara.