mánudagur, 11. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Velheppnuð dómstörf í Meistaradeildinni

9. febrúar 2012 kl. 13:21

Velheppnuð dómstörf í Meistaradeildinni

Í keppnum gegna dómarar stóru og mikilvægu hlutverki. Dómstörf í fjórgangskeppni meistaradeildar síðastliðinn fimmtudag tókust með miklum ágætum.  Dómarar voru mjög samstíga og margir áhorfendur töldu sig upplifa greinilega áherslu á að verðlauna vandaða og fallega reiðmennsku þar sem samspil manns og hests var sett í öndvegi. Vonandi er tónninn gefinn fyrir það sem koma skal.

Í kvöld verður keppt í gæðingafimi, krefjandi keppnisgrein þar sem reynir á ganghæfileika, þjálfunarstig hests og knapa, fegurð, kraft og glæsileik.

Sýningin er spuni og ræðst árangur m.a. af útfærslu og frumkvæði knapa. Sýnandi fær fjórar mínútur til þess að sýna það besta sem knapi og hestur hefur uppá að bjóða og er dæmdur af sex dómurum. Þrír dómarar gefa einkunnir fyrir gangtegundir og flæði og aðrir þrír dómarar dæma æfingar og fjölhæfni.

Sjaldan er keppt í gæðingafimi og því jafnvel ótækt fyrir marga að vita hvað telst til stiga þegar dæmt er. Til þess að áhorfendur átti sig betur á dæmingu gæðingafiminnar fylgja hér leiðarvísir dómara. Er óhætt að hvetja brekkudómara að hafa þessar reglur til hliðsjónar í kvöld.

Gæðingafimi

Lengd sýningar má vera að hámarki þrjár og hálf mínúta, haldi keppandi áfram að þeim tíma liðnum kemur það niður á einkunn fyrir flæði. Riðið skal stystu leið að upphafspunkti æfingar sem getur verið hvar sem er á vellinum, hneigja sig og hefja keppni. Keppandi hefur fjórar mínútur frá því að keppni hefst til að klára sína sýningu og yfirgefa völlinn.

Sýna skal a.m.k. þrjár gangtegundir og fimm fimiæfingar. Keppandi skal sýna eina skylduæfingu og er hún opinn sniðgangur á tölti og skal hún vera ein af þessum fimm fimiæfingum. Keppandi velur og skaffar tónlist sjálfur.

Dæmi um æfingar sem knapar geta notað í sýningu:
 • Riðið á hringnum
 • Krossgangur
 • Sniðgangur opinn / lokaðu
 • Hraðabreytingar á gangtegundum; tölti brokki stökki
 • Framfótarsnúningur
 • Afturfótarsnúningur
 • Riðin átta
 • Skipt yfir allan völlinn
 • Bakka
 • Fet við langan taum

Ekki er þetta tæmandi upptalning heldur aðeins ábending um hvað hægt er að notast við. Þeir keppendur sem kjósa að velja sér æfingar utan þessa lista hafa að sjálfsögðu heimild til þess. Dómarar dæma æfingar hverja fyrir sig frá eink. 0 – 10. Deilitala ræðst síðan af fjölda æfinga en er þó aldrei lægri en fimm sem er lágmarksfjöldi æfinga.

Dómarar dæma á sama hátt gangtegundir og ræðst deilitala af fjölda sýndra gangtegunda. Deilitala verður þó aldrei lægri en þrír sem er lágmarksfjöldi sýndra gangtegunda.

Einkunnir fyrir flæði og fjölhæfni eru gefnar samkvæmt leiðurum hér að neðan.

Lokaeinkunn er vegið meðaltal þessara fjögurra einkunna þar sem einkunn fyrir flæði hefur tvöfalt vægi.

Í forkeppni eru þrjár samanburðarhæfar tölur lesnar upp fyrir hvern hest. Dómi er þannig háttað að einn dómari sem dæmir gangtegundir og flæði og annar sem dæmir æfingar og fjölhæfni hafa einn ritara saman, sem reiknar heildarniðurstöðu fyrir dómaraparið. Í úrslitum, sem 5 efstu knaparnir taka þátt í eru lesnar upp tólf tölur, einkunnir þriggja dómara fyrir gangtegundir og flæði og einkunnir þriggja dómara fyrir æfingar og fjölhæfni.

Ef fjárhagslegur grundvöllur er fyrir hendi getur stjórn Meistaradeildar ákveðið að byggja dóminn á fimm dómurum sem dæma gangtegundir og flæði og öðrum fimm sem dæma æfingar og fjölhæfni.

Einkunn fyrir flæði

Hér er dæmt fas hestsins og heildarmynd sýningar. Lykilorð: vilji, einbeyting, samspil, fas, snerpa, samræmi, tónlist, fegurð í reið.

9 til 10
 • Frábær gæðingur, viljugur, fasmikill með góðan fótaburð.
 • Samstillt sýning, þar sem tónlist og æfingar falla saman.
 • Stillingar hestsins ávallt réttar í æfingum.
 • Undirbúningur æfinga óaðfinnanlegur.
 • Kraftur og orka lýsa af hestinum.
8 og 8,5
 • Gæðingur, viljugur, fasmikill með góðan fótaburð, lítilsháttar misfella eða taktleysi.
 • Samstillt sýning, þar sem tónlist og æfingar falla saman.
 • Tónlist aðfallandi.
7 og 7,5
 • Gæðingur og gott flæði í sýningunni en nokkrir áberandi hnökrar.
 • Góð sýning, góð reiðmennska, vantar upp á kraft og fegurð í reið.
 • Fallegt yfirbragð með aðfallandi tónlist.
 • Mjög góð sýning, meðalhestur.
6 og 6,5
 • Ágæt sýning með lítilsháttar hnökrum í takti eða stillingum.
 • Kraftlítil sýning en hreyfingar hests og fas í rúmu meðallagi.
 • Góð sýning en tónlist lítt aðfallandi.
 • Gangtegundir hreinar, en vantar upp á fegurð í reið.
5 og 5,5
 • Meðalsýning, góður hestur.
4 og 4,5
 • Tæplega meðalsýning.
 • Hestur ekki í takti á gangtegundum , lélegt samræmi og lítið fas.
 • Ábendingar knapa verulega áberandi og til líta fyrir sýninguna.
 • Undirbúningur undir æfingar tilviljanakenndur.
1 til 3,5
 • Illa unnar æfingar.
 • Hestur framtakslaus.
 • Illa grunduð sýning.
0
 • Latur hestur, ónýtt prógram.

Einkunn fyrir fjölhæfni

Lykilorð eru fjölbreytni, frumleiki og áræði.

Þar sem knapinn er algerlega frjáls að skipulagi sýningar og æfingum gæti hann eingöngu sýnt gangtegundir hestsins á beinum línum og nokkrar léttar fimiæfingar. Slík sýning gæti fengið háar einkunnir fyrir gangtegundir, fimi og flæði, en hún fengi lága einkunn fyrir fjölhæfni þar sem sýningin er einföld. Þar sem þessi sýning felur heldur ekki í sér áræðni og frumleika teldist það enn til lækkunnar fyrir fjölhæfni.

Vel útfærðar nýungar eða æfingar sem falla ekki beint að skilgreindri hlýðnikeppni eru til tekna í fjölhæfni. Dæmi um þannig æfingar geta verið hneiging, prjón, brokk á staðnum, hestur falli á hné o.s.fr.

9 til 10
 • Allnokkrar erfiðari æfingar fiminnar gerðar með frábærum hætti.
 • Samsetning æfinga áræðin og frumleg
 • Skiptingar milli æfinga lýtalausar.
 • Taktur góður á gangtegundum.
 • Fjölbreytni í gangtegundum, frábærar gangtegundir
8 og 8,5
 • Knapi sýnir frábærlega en tekur ekki flókna samsetningu erfiðra æfinga.
 • Lítilsháttar hnökrar í erfiðari æfingunum.
 • Taktur góður á gangtegundum.
 • Fjölbreytni í gangtegundum, frábærar gangtegundir
7 og 7,5
 • Knapi sýnir nokkuð erfiðar æfingar og fellir þær vel inn í sýninguna.
 • Knapi er með afar vel útfærða sýningu en mistekst verulega í einni æfingu.
 • Erfiðari æfingar sýndar með lítilsháttar hnökrum.
 • Fjölbreytni í gangtegundum.
6 og 6,5
 • Einfaldar æfingar vel útfærðar, hnökrar í erfiðari æfingum.
 • Einfaldar æfingar vel útfærðar en lítið um flóknar æfingar.
 • Flóknar æfingar en hnökrar nokkrir eða taktleysi á köflum.
5 og 5,5
 • Meðalsýning
 • Nokkuð góðar fimiæfingar sýndar, þó ekki verulega erfiðar.
 • Flestar erfiðari fimiæfingarnar sýndar, sumar ganga vel upp, en vantar upp á útfærslu á öðrum.
4 og 4,5
 • Knapi gerir tilraunir við margar fimiæfingar en framkvæmir þær flestar illa, en tekst þó þokkalega upp í nokkrum.
 • Knapi útfærir fáar fimiæfingar en skilar þeim nokkuð vel.
 • Knapi sýnir litla viðleitni við að sýna erfiðar fimiæfingar.
1 til 3,5
 • Knapi gerir tilraunir við margar erfiðar fimiæfingar en framkvæmir þær verulega illa eða vitlaust.
 • Knapi framkvæmir ekki nema eina til tvær fimiæfingar í prógrammi sínu og skilar þeim undir meðallagi.
0
 • Knapi framkvæmir ekki fimi æfingar.
 • Knapi reynir en gerir allar æfingar rangt.
 

Æfingaflokkar og styrkleikastuðlar

Dómarar sem dæma æfingar og fjölhæfni dæma æfingarnar sjálfar eins og þær koma fyrir en leggja til grundvallar inn í fjölhæfniseinkunnina meðaltal af margfeldi styrkleikastuðla og einkunna fyrir æfingar.

Með öðrum orðum þá gefa æfingar í flokki 5 hér að neðan hæstu fjölhæfniseinkunnina, að öðru jöfnu.

Eftir sem áður getur komið betur út fyrir knapa að velja léttari æfingar ef hann gerir þær vel heldur en erfiðar æfingar sem hann ræður ekki við. Tökum dæmi: Ef knapi gerir æfingu í flokki 1 upp á 7 en æfingu í flokki 5 upp á 3 þá gefur fyrri æfingin honum meira fyrir fjölhæfni þar sem 0,6x7 er 4,2, sem er hærri tala en 3x1.

 1. Riðið eftir reiðleiðum, hliðargangsæfingar á feti, æfingar útfærðar víð vegg (með stuðning). Styrkleikastuðull inn i fjölhæfniseinkunn    0,6
 2. Sama og 1, nema án stuðnings (ekki víð vegg) Styrkleikastöðull   0,7
 3. Hliðargangsæfingar á tölti og brokki, safnandi og losandi og hraðabreytingar við vegg. Styrkleikastöðull   0,8
 4. Sama og 3 nema án stuðnings, Styrkleikastöðull   0,9.
 5. Safnandi æfingar þar sem æfingarnar eru farnar að skila miklum árangri, farnar að bæta gangtegundirnar. Í þessum flokki eru líka æfingar eins og piaff, spænska fetið, fljúgandi stökkskiptingar, aukið brokk og svo framvegis. Styrkleikastöðull   1.00

Æskilegt að æfingarnar og fjölhæfni dæmist af hæfustu reiðkennurum og/eða dómurum sem völ er á.