föstudagur, 20. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Velferð hestsins á formannafundi

19. nóvember 2013 kl. 14:28

Formannafundur

80% með særindi í munni í þegar kemur að úrslitum í tölti.

 

 

Á formannafundi LH sem haldinn var föstudaginn 8. nóvember hélt Sigríður Björnsdóttir dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Mast  ágætis tölu.  Þar benti hún á mikilvægi þess að keppnisgreinar og kynbótasýningar yrðu þróaðar í hestvænni átt. Það væri í raun lærdómurinn sem draga mætti af niðurstöðum heilbrigðisskoðana á LM og ÍM  2012. Nauðsynlegt væri fyrir markaðsókn íslenska hestsins að skapa hestvæna ímynd og standa undir henni.

 „ Í mínum huga er enginn vafi að íslenski hesturinn á framtíð sína undir því að stefnan sé tekin á hestvæna notkun.  Við þurfum að vera sannfærð um það að hestinum líði vel með þau verkefni sem lögð eru fyrir hann.“

 Sigríður sagði að við nánari úrvinnslu á gögnum frá 2012 hefði komið í ljós að enginn munur væri á tíðni munnmeiðsla hvort sem um var að ræða gæðingakeppni, íþróttakeppni eða kynbótasýningar (síðastnefndi hópurinn var reyndar aðeins skoðaður fyrir sýningu).

 „Það virðist ekki gagnast hestunum að hluti einkunnar í íþróttakeppni sé gefinn fyrir reiðmennsku. Þetta þarf að hugleiða vel.“ sagði Sigríður.

 Þá vekur athygli að tíðni særinda í munni, fyrir keppni, reyndist marktækt lægri hjá skeiðhestum. 

Ekki var marktækur munur milli hesta í fjórgangs- og fimmgangsgreinum  og má segja að heilt yfir hafi um 50% hestanna verið með særindi í munni.  Þegar kom að úrslitum í tölti blasti við verri staða þar sem 80% hestanna voru komin með særindi, þar af helmingurinn alvarleg. Fyrir úrslit í slakatuamtölti var hins vegar enginn hestur sár í munni.

 Þessar niðurstöður vekja óneitanlega spurningar um hvort særindi í munni endurspegli getu hesta til að bera sig sjálfir og/eða hvort þau tengjast fremur hálsreisingu og höfuðburði (formi) sem aftur vekur spurningar um tengsl við virkni baksins.

 „Ég tel einsýnt að það þurfi að auka þekkingu bæði knapa og dómara á líkamsbeitingu hestsins og greina betur hvernig hún tengst áverkum í munni. Erum við að verðlauna form eða líkamsbeitingu sem er hestum óeiginleg og  sem leiðir til vanlíðunar, þ.m.t. áverka?“

 Að lokum benti Sigríður á mikilvægi þess að vinna þetta verkefni í samvinnu við hestamenn og  að kafa þyrfti dýpra í leit að hinum eiginlegu orsökum.

 Erindið fékk góðar viðtökur og ekki annað að heyra að fundarmenn tækju heilshugar undir.