sunnudagur, 20. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vel ,,hestaður"

27. janúar 2015 kl. 12:58

Gústaf Ásgeir Hinriksson er vel hestum búin fyrir komandi keppnistímabil.

Gústaf Ásgeir undirbýr nú þriðja keppnisárið í Meistaradeildinni.

Gústaf Ásgeir Hinrikson undirbýr nú þriðja keppnisárið sitt í liði Árbakka/Hestvits í Meistaradeildinni. Þrátt fyrir að etja kappi við eldri og reyndari knapa hefur Gústafi gengið vel í deildinni og verður gaman að fylgjast með honum í vetur.

Hann er meðal annars með nýjan keppnishest í þjálfun, Þyt frá Efsta-Dal II. Þytur er ekki ókunnur keppnisvellinum og vakti athygli á töltmótum á síðasta ári. Á honum stóð Þórarinn Ragnarsson uppi sem sigurvegari ísmótsins Þeir allra sterkustu. Þeir kepptu einnig í firnasterkum úrslitum Landsmóts. „Ég er þokkalega vel hestaður. Auk Þyts ég með Geisla frá Svanavatni í fimmgang og Andra frá Lynghaga í skeiðið. En það eru líka mörg hross í þjálfun heima sem ég gæti jafnvel notað. Það kemur í ljós,“ segir Gústaf og býr vel að hestakosti fjölskyldunnar. Gústaf telur sig lánsaman enda hefur hann haft fleiri hesta undir höndum á ferli sínum sem hestamaður en almennt gerist hjá jafnöldrum hans. „Ég hef verið einstaklega heppinn hvað þetta varðar. Ég hef alltaf haft aðgang að frábærum hrossum sem fylgir rekstrinum sem mamma og pabbi eru í. Það fara mörg mjög góð hross hér í gegn og skiptum við þeim niður á okkur,“ segir Gústaf sem telur þetta hafa haft mjög góð áhrif á sig sem knapa.

Viðtal við Gústaf Ásgeir og Jóhönnu Margréti Snorradóttur má nálgast í 1. tbl. Eiðfaxa. Hægt er að gerast áskrifandi í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is.