þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vel heppnuð Stórsýning Fáks

20. ágúst 2019 kl. 22:30

Anton Páll Níelsson var einn af þeim reiðkennurum sem kom fram, hér er hann með einn af nemendum sínum Hjörvar Ágústsson

Greina má breyttar áherslur á reiðhallarsýningarhaldi

 

Grein þessi birtist í síðasta tölublaði Eiðfaxa og segir frá Stórsýningu Fáks, sem fór fram snemma síðasta vor og til stendur að halda aftur næsta vetur/vor. Greinina skrifaði Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir. 

Stórsýning Fáks var að venju haldin með pompi og prakt snemma í vor. Í ár var tekið upp á þeirri nýbreytni að leggja allan daginn undir og bjóða upp á kennslusýningar með mörgum af fremstu knöpum og reiðkennurum landsins yfir daginn og hápunkturinn, stórsýningin sjálf, haldin um kvöldið. Það er óhætt að fullyrða að þetta nýja fyrirkomulag hafi tekist afar vel og verið áhorfendum, sem og þátttakendum til gagns og gamans.

 

Stórsýning Fáks hefur verið haldin um árabil og er elsta reiðhallarsýning á landinu. Ánægjulegt er að sjá slíkar sýningar mótast í tímans rás en það form sem nú var er frekar nýtt á nálinni hér á landi. Þetta breytta snið sýningarinnar ber vott um þær breyttu áherslur sem orðið hafa í kjölfar þeirrar þróunar í íslenskri reiðmennsku sem við höfum séð á síðustu tuttugu árum. Oft hefur það loðað við reiðhallarsýningar að minna fer fyrir fallegri reiðmennsku og samspili manns og hests en meiri áhersla lögð á yfirferðargang og að hestarnir séu sem „vígalegastir“. Mun meiri fræðsla er nú til staðar fyrir hestamenn og eru flestir duglegir að sækja námskeið meðfram útreiðum á veturna. Ef til vill hefur sýningin náð til breiðari hóps með þessu sniði, þar sem hún uppfyllti hvoru tveggja, fræðslu- sem og skemmtanagildi.

Í anddyri reiðhallarinnar var fjöldinn allur af söluaðilum að kynna vörur sínar og þjónustu, svo úr varð eins konar markaðstorg. Úr varð skemmtileg stemning sem gjarnan er reynt að ná fram erlendis á ýmsum hestaviðburðum. Það var vel tekið undir þetta fyrirkomulag af gestum sýningarinnar sem gerðu góð kaup og röbbuðu saman þess á milli, enda hestamenn sjaldan uppiskroppa með umræðuefni sín á milli.

 

Það hefur tíðkast í allnokkur ár að reiðkennaraefni Hólaskóla, nemendur á þriðja ári, yfirgefi Hjaltadalinn og bjóði upp á kennslusýningu af einhverju tagi, þar sem þau æfa sig í að miðla þekkingu sinni og reynslu við loks námsferilsins. Lagt var land undir fót og voru þau með sína sýningu í samfloti við þær kennslusýningar sem boðið var upp á um daginn.

Hólanemar lögðu fram hugmynd að unghrossakeppni þar sem reynt væri að spá fyrir um framtíðarmöguleika hestins, sem þau kölluðu ,,Futurity“. Fjölluðu þau um grundvallaratriði í reiðmennsku og hestamennsku almennt, svo sem viðhorf gagnvart hestinum, þjálfunarstigann og uppbyggingu reiðhestsins. Er þetta tvímælalaust lærdómsrík lífsreynsla og ómissandi þáttur í kennslustarfinu fyrir upprennandi reiðkennara og knapa, að fara út á örkina og æfa sig í að koma fram með hugmyndir sínar og áherslur.

Þó nokkrir ólíkir reiðkennarar og þjálfarar komu jafnframt fram um daginn með áhugaverðar sýnikennslur, en það voru þau Anton Páll Níelsson, Ásta Björnsdóttir, Hanna Rún Ingibergsdóttir, Hjörvar Ágústsson, Mette Mannseth, Súsanna Sand Ólafsdóttir, Fredrica Fagerlund, Hulda Gústafsdóttir og Árni Björn Pálsson. Greinilegt var að áherslurnar voru mismunandi en greina mátti samhljóm í gegnum allt saman, sama rauða þráðinn. Tveir myndskjáir voru til staðar sem nokkrir nýttu sér, til að auðvelda áhorfendum að meðtaka skilaboðin og þótti það góð viðbót.

 

Auk þess að aðstoða nemendur sína fyrr um morguninn komu Anton Páll Níelsson og Mette Mannseth, reiðkennarar Hólaskóla, fram seinna um daginn. Anton kom ekki fram á hesti heldur með fyrrverandi Hólanemum í tveim atriðum, sem voru á hestum. Annars vegar með henni Ástu Björnsdóttur, sem stundar tamningar og þjálfun í Austurási og hins vegar með þeim Hönnu Rún Ingibergsdóttur og Hjörvari Ágústssyni, sem starfa við tamningar og þjálfun í Kirkjubæ. Það hefur hingað til ekki verið algengt fyrirkomulag á sýnikennslum að vera hluti af samskiptum á milli kennara og nemanda, þar sem þankagangur knapans er dreginn fram í gegnum samtal. Á þennan hátt voru kostir og gallar ræddir á opinskáan og afslappaðan máta, sem reyndist skemmtilegur vinkill.

Mette Mannseth og Karl frá Torfunesi lögðu línurnar fyrir áhorfendur um að uppbygging afrekshests tekur langan tíma. Kenna þarf hestinum hlutina stig af stigi og stöðugt viðhalda grundvallaratriðunum þó hesturinn sé orðinn vel menntaður. Þau glöddu sömuleiðis salinn þegar þau enduðu á feikna skeiðsprettum.

Hulda Gústafsdóttir tók í sama streng er hún fjallaði um mikilvægi léttleikans við þjálfun. Hún kom fram með Ágústínusarsoninn Sesar frá Lönguskák en þau hafa verið að gera það gott í fjórgangi að undanförnu. Sýnikennsla Súsönnu Sand Ólafsdóttur og Fredricu Fagerlund var með svipuðu sniði og hjá Antoni Páli, þar sem samtal átti sér stað á milli kennara og nemanda. Lögð var áhersla á líkamsbeitingu og vitund knapans, með því að notast meðal annars við öndun til að fylgja betur hreyfingum hestsins.

Lokaatriði kennslusýningarinnar voru félagarnir Árni Björn Pálsson og Ljúfur frá Torfunesi, en þeir urðu Landsmótssigurvegarar 2018 í tölti og hlaut Ljúfur einnig 10 fyrir tölt í kynbótadómi nú í vor. Þeir gáfu áhorfendum innsýn inn í sitt þjálfunarfyrirkomulag og Árni stiklaði á stóru með sínar áherslur við uppbyggingu afrekshests. Það er afar verðmætt að okkar fremstu knapar komi fram og deili þeim fróðleik sem þeir búa yfir, íslenskri reiðmennsku til framdráttar.

Sýning um kvöldið tókst stórkostlega og var hestakosturinn á henni góður. Margir áhorfendur mættu á staðinn og andrúmsloftið og stemmingin framúrskarandi. Fram komu margir af bestu knöpum landsins og sýndu hvað í þeim bjó. Að öðrum ólöstuðum má segja að stjörnur sýningarinnar hafi verið Trymbill frá Stóra-Ási sýndur af Gísla Gíslasyni og Hátíð frá Hemlu II sýnd af Árna Birni Pálssyni.

Skemmst frá því að segja að dagurinn tókst stórvel, frá upphafi til enda. Er þessi sýning vonandi komin til að vera og skapa jafnvel fyrirmynd fyrir komandi hestaviðburði, þar sem fræðsla og skemmtun er í forgrunni.