fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vel heppnuð Fákar og Fjör sýning

22. apríl 2013 kl. 09:41

Vel heppnuð Fákar og Fjör sýning

Stórsýning norðursins, Fákar og fjör fór fram í Léttishöllinni á Akureyri í gærkvöldi. Margt var um manninn og hrossafjöldinn mikill. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra ávarpaði gesti sýningarinnar með hvatningarræðu og setti sýninguna í kjölfar fánareiðar. Vakin var athygli á bættu æskulýðsstarfi í kjölfar reiðhallarinnar, en Léttiskrakkar voru með skemmtilegt og fjölmennt atriði. Sýnd voru bæði klárhross og alhliða hross ræktuð á Norðurlandi, ásamt ýmsum stóðhestum hvaðan af á landinu. Blær frá Miðsitju og Grunnur frá Grund riðu á vaðið sem fyrstu stóðhestar kvöldins og gerðu vel. Báðir flugrúmir og kraftmiklir alhliða hestar. 

Einnig var afkvæmum Gígjars frá Auðsholtshjáleigu gerð góð skil en Hrossaræktarsamtök Eyfirðinga og Þingeyinga eiga hlut í Gígjari og því hestur hesturinn verið töluvert mikið notaður norðan heiða. Glæsihryssan Muska frá Torfunesi bar af í afkvæmahópi Gígjars, en afkvæmin báru með sér góðan þokka í heildina litið. Mikið var um skrautreiðar og skemmtisýningar, sem dæmi má nefna vel útfært atriði með átta gráum gæðingum, við ljúfa tóna Örvars Kristjánssonar með texta Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Einnig létu Eyfirsku gæsirnar og Húnvetnsku dívurnar sig ekki vanta á sýninguna og liðu um gólfin með pilsfaldana á eftir sér. Nýstárlegt atriði kom frá Húsavík að þessu sinni, en þeir sýndu gestum sýningarinnar norðurljósadýrðina sem við á Íslandi, sérstaklega á Norðurlandi, fáum að kynnast. Unga kynslóðin var einnig áberandi á sýningunni, bæði í sér æskulýðsatriðum og öðrum. 
Haldin var skeiðkeppni í gegnum höllina og fékk vinningshafinn 50.000 kr í vasann. Hlutskörpust að þessu sinni urðu þau Linnéa Kristín Brofeldt og Möttull frá Torfunesi og bættu um leið tímametið í gegnum Léttishöllina. 
 
Þórdís Erla Gunnarsdóttir og Gunnar Arnarsson voru með atriði fyrir hlé, þar sem þau sýndu Álfasteinsbörnin Topp og Þóru Dís frá Auðsholtshjáleigu. Bæði hrossin eru undan heiðursverðlaunahryssum, þeim Trú og Gígju frá Auðsholtshjáleigu. Þórdís og Gunnar enduðu síðan á því að afhenda farandbikar fyrir björtustu von Eyfirðinga og Þingeyinga, en fyrstu viðtöku bikarsins veitti hún Anna Kristín Friðriksdóttir úr Svarfaðardal. Einnig fékk Anna Kristín eignarskjöld, en bikarinn heldur árlega áfram að fara til þess ungmennis innan HEÞ sem þykir skara fram úr á keppnisbrautinni, með fágaða og góða reiðmennsku og sem fyrirmynd. Gunnar og Þórdís nýttu einnig tækifærið til að vekja athygli á átakinu Klárir knapar, sem Þórdís Erla hrinti í framkvæmd og gáfu meðal annars hjálm til heppins stuðningsmanns átaksins á facebook. 
 
Nokkur ræktunarbú sýndu hross frá sér, þar á meðal Björg, Skriðuland, Efri-Fitjar, Sauðanes og Flugumýri II. Mörg hross komu einnig fram frá Efri-Rauðalæk, þar á meðal stóðhestarnir Kalmar og Hrafn frá Efri-Rauðalæk, að ógleymdum skjóttu systkinunum undan Kríu frá Krithóli, þeim Randalín, Rósalín og Blika frá Efri-Rauðalæk. 
Stóðhestarnir Grettir og Byr frá Grafarkoti voru sýndir listavel af prúðbúna parinu Fanney Dögg Indriðadóttur og Elvari Loga Friðrikssyni. Dætrum Mola frá Skriðu var gerð góð skil í sér atriði, en allar áttu merarnar það sameiginlegt að vilja sem minnst snerta jörðina með framlöppunum, svo hágeng eru Molaafkvæmin. Unghestarnir Pistill frá Litlubrekku og Krókus frá Dalbæ sýndu hvað í þeim býr og Skrugga frá Kýrholti og Erlingur Ingvarsson sýndu fólki hvers vegna þau unnu Stjörnutöltið 2013 á Akureyri í mars síðastliðnum. 
 
Systkinin Álmur og Skjönn frá Skjálg, undan Vá frá Skjálg voru vel sýnd af Ævari Erni  Guðjónssyni og Sigursteini Sumarliðasyni, en Álmur er án ef einn besti alhliða gæðingur landsins um þessar mundir, flugvakur með 9,5 fyrir tölt í kynbótadómi, en töltir jafnframt af mýkt og lipurð. Á eftir systkinunum tók við eintómur stóðhestafans, en Hrannar frá Flugumýri II salinn með knapa sínum Eyrúnu Pálsdóttur. Mjög flott par og stóð Eyrún sig virkilega vel að sýna hestinn.

Skötuhjúin Mette Mannseth og Gísli Gíslason sýndu stóðhestana Trymbil frá Stóra-Ási og Hnokka frá Þúfum, en Eldur frá Torfunesi forfallaðist á síðustu stundu. Þeir Trymbill og Hnokki eru báðir miklir hæfileikahestar og Mette og Gísli miklir hæfileikaknapar, svo það hefði varla getað verið betra. Lokaatriðið var Gaumur frá Auðsholtshjáleigu, setinn af Þórdísi Erlu Gunnarsdóttur. Það var enn annar hestur með yfir 9 fyrir hæfileika, enda virkilega mjúkur, rúmur og viljugur en þjáll glæsihestur. Gaumur og Þórdís settu því punktinn yfir i-ið á þessu annars fína kvöldi.

HHG

hér má sjá myndir:

Metteoggisli-IMG_6520-1

Gísli og Mette voru glæsileg á stóðhestunum 

Grair-IMG_4956 copy

Þeir gráu voru glæsilegir

Grafarkot-IMG_5213

Stóðhestarnir Grettir og Byr frá Grafarkoti voru sýndir listavel af prúðbúna parinu Fanney Dögg Indriðadóttur og Elvari Loga Friðrikssyni

Bjartastavonin-IMG_5098

Anna Kristín eignarskjöld, en bikarinn heldur árlega áfram að fara til þess ungmennis innan HEÞ sem þykir skara fram úr á keppnisbrautinni

Randalin-IMG_5848

Randalín frá Efri-Rauðalæk sýndi flotta takta með skjóttu systkinum sínum