laugardagur, 15. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veik hross í reiðskólum og hestaleigum

Jens Einarsson
24. júní 2010 kl. 15:49

Forustumenn hestamanna ekki að standa sig

Nokkrir hestamenn hafa haft samband við H&H og sagt frá að þeir hafi séð veik hross í reiðskólum og á hestaleigum. Þar á meðal Erling Sigurðssin, hestamaður og verslunarmaður. Hann segist hafa séð hesta með hor og hósta í reiðskólum og hestaleigum á höfuðborgarsvæðinu og það geti fjöldi manns staðfest.

Hestaheilsa í reiðskólahrossa

Erling segir það með ólíkindum að þurfa að hlusta á það að hross í reiðskólum og hestaleigum séu ekkert veik á meðan öll önnur hross í landinu séu veik. Hann segir það líka með ólíkindum að LH og Bændasamtökin séu búin að fresta Landsmóti, en samt séu sömu aðilar að auglýsa hestamót og kynbótasýningar á sama tíma og Landsmótið átti að vera.

Algjör óreiða

„Það ríkir algjör óreiða í hestasamfélaginu og fólk er orðið mjög tortryggið. Forystumenn okkar eru einfaldlega ekki að standa sig. Fyrst fengum við þær upplýsingar að þetta væri fimm daga veiki. Síðan að hún gengi yfir á tveimur vikum. Síðan fjórum til sex vikum. Nú eru mörg hross búin að vera veik í alla vega tólf vikur og er að slá niður ef þau eru brúkuð. Ég spyr nú bara: Er hægt að auglýsa hestamót við þessar aðstæður eins og ekkert sé? Mér finnst það lágmarks krafa að LH, BÍ og yfirdýralæknir taki þetta mál fastari tökum og móti einhverja áætlun sem miði að því að vernda hrossin á meðan ekkert er vitað hvað að þeim gengur, né hvort og hver þá eftirköstin kunna að verða.“

Þurfa ekki leyfi til að opna reiðskóla

Erling furðar sig líka á því að hver sem er geti opnað reiðskóla fyrir börn. „Ef þú vilt gerast dagmamma og passa börn heima hjá þér þarftu allskonar leyfi. Það er heilmikið mál. En ef þú vilt passa bæði börn og hesta, þá þarftu ekkert leyfi. Maður sér jafnvel fólk opna reiðskóla fyrir börn sem hefur litla sem enga reynslu af hrossum. Það fær unglinga til að leiðbeina börnunum. Hvað menntun og reynslu hafa þeir í að hugsa um börn og hesta? Ef þetta er öll fagmennskan í hestamennskunni sem alltaf er verið að tala um þá finnst mér hún ekki á háu plani,“ segir Erling.