miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vegna vals á Landsmótsstað

5. desember 2014 kl. 10:14

Frá opnunarhátíð Landsmóts 2014.

Opið bréf til stjórnar LH

"Ágæta stjórn.

Skv. fréttatilkynningu sem ég las í gær frá stjórn LH kemur fram að stjórnin hafi samþykkt að verða við beiðni Gullhyls ehf. um breytt staðarval landsmóts 2016 á þann veg að “mótsstaðurinn verður færður frá Vindheimamelum heim að Hólum í Hjaltadal”.

Það er skoðun undirritaðs, auk þess sem lög og reglur kveða svo á, að það sé réttur og skylda stjórnar LH að velja landsmótsstað. Er það eðlilegt þar sem það er jafnframt hlutverk hennar að sjá til þess að rekstur mótanna fari sem best fram hverju sinni. En þrátt fyrir það verður hins vegar ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að á s.l. landsþingi urðu miklar og heitar umræður um tillögu sem kom fram frá hestamannafélögunum í Skagafirði og varðaði staðarval  landsmóts 2016. Hér verður ekki fjölyrt frekar um þessar umræður að öðru leyti en því að þeim lauk með því að meirihluti þingfulltrúa samþykkti tillöguna og beindi því þar með til stjórnar LH að ljúka samningaviðræðum við Gullhyl væri þess kostur. Kunnugt er að Gullhylur ehf. er í eigu hestamannafélaganna í Skagafirði og er tilgangur þess rekstur og starfsemi mótsvæðisins á Vindheimamelum í Skagafirði. Varðaði umsókn félagsins um  landsmótsstað 2016 því eðlilega það mótssvæði og tóku umræður á þinginu mið af því. Ekki var vikið að því einu orði hvorki í umsókn, tillögu sem lögð var fyrir þingið né í umræðum um hana að Gullhylur hyggðist síðar óska eftir því að mótið 2016 yrði haldið á Hólum.

Þar sem undirritaður var þingfulltrúi  á s.l. landsþingi og tók þátt í umræðum um staðarval landsmóts 2016, er óskað svara við eftirfarandi spurningum sem hafa vaknað hjá honum ofl.

Í fyrsta lagi er spurt hvort stjórn LH geti staðfest það sem hefur komið fram í samtali við stjórnarformann Gullhyls að beiðni félagsins um flutning landsmóts 2016 á Hóla sé vegna þess að stjórn LH hafi óskað eftir því. Ef stjórn LH staðfestir að þarna sé rétt með farið er óskað frekari útskýringa á þessum málatilbúnaði.

Í öðru lagi er spurt hvaðan stjórn LH sæki þá heimild að flytja mótið frá Vindheimamelum að Hólum án þess að ljúka fyrst samningaviðræðum við Gullhyl um mótssvæðið á Vindheimamelum eins og samþykkt var á landsþinginu?

Þessar spurningar eru settar fram með það í huga að landsþing LH er æðsta vald í málefnum þess. Ýmsar aðrar spurningar hafa vaknað hjá undirrituðum vegna þessa máls en þær eiga ekki heima í þessu bréfi þar sem það tekur mið af umræðum og afgreiðslu þessa máls á þinginu.

Þess er óskað að spurningum þessum verði svarað sem fyrst. Að lokum er nýrri nýrri stjórn LH óskað velfarnaðar."

Með bestu kveðju,
Sveinbjörn Sveinbjörnsson, þingfulltrúi Spretts.