miðvikudagur, 16. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vegið að æru dómara

4. febrúar 2011 kl. 11:28

Vegið að æru dómara

“Ef við ætlum að tala um einhverja hluti og gera það á uppbyggilegan hátt þá þarf að ræða málin á málefnalegum grunni,” segir Hörður Hákonarsson yfirdómari Meistaradeildarinnar þegar hann er inntur eftir viðbrögðum neikvæðrar netumræðu. “Til hvers er verið að gera þetta? Er þetta gert fyrir framþróun íþróttarinnar? Er þetta gert til upplyftingar á deildinni? Eða er þetta gert til að niðurlægja dómara?”

Hestaíþróttadómarafélag Íslands sendi í vikunni frá sér áskorun þar sem félagið harmar ómálefnalaga umræðu um störf dómara á vefmiðlum. Kemur þar fram að rætin og órökstudd umræða sem þrífst í skjóli nafnleysis séu dómurum ekki til framdráttar, né Meistaradeildinni.

Gylfi Geirsson formaður Hestaíþróttadómarafélags Íslands lítur á fréttaskrif og spjall af þeim toga sem birtust síðastliðna viku sem árásir. “Ritstjóri þess miðils er sjálfur dómari og sem starfsbróðir á hann ekki að ganga svona fram. Þetta virkar þannig á mig að hann vilji upphefja sjálfan sig á kostnað annarra. Ég lít á þetta sem árásir – ekkert annað.”

Hörður bendir á að sú gagnrýni að dómarar í gæðingafimi séu ekki starfi sínu vaxnir sé meinfýsin. “Í gæðingafimi eru þrír gæðinga- og íþróttadómarar sem dæma gæði gagntegunda og flæði. Að auki eru reiðkennarar í fremstu röð sem dæma fimi og æfingar. Þar fáum við reynslumikið og hæft fólk sem hefur réttindi til að kenna og hefur keppt í áravís, fólk sem lifir og hrærist í þessu. Þar erum við að gera okkar besta og til að leysa þetta verkefni með sóma.” segir Hörður.

“Ég brýni alltaf fyrir dómurum að gæta hlutleysis. Við erum að leggja dóm á margra ára vinnu keppenda. Allir keppendur byrja jafnir. Þannig þurfum við að vinna og eigum að vinna og það er það sem við leggjum upp með,” segir Hörður. Hann bendir á tölfræðiniðurstöður í forkeppni síðasta Meistaramóts, þar sem frávik allra sýndra einkunna var 0,49 sem telst innan allra ramma. “Auðvitað koma upp atvik þar sem frávikin eru meiri, í B-úrslitum var t.a.m. í tvö skipti 2 í frávik. Þessi frávik strikuðust út en ástæða þess að hæsta og lægsta einkunn eru alltaf strikuð út er að fyrirbyggja svona lagað,” segir Gylfi.

Eiðfaxi brýnir fyrir öllum sem mat vilja leggja á dóma, að gera það á málefnalegan hátt. Það er engum til framdráttar að ýfa upp rógsama og orðljóta umræðu, síst þeim sem fyrir henni standa.