þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veðreiðar Íslands ehf.

4. október 2019 kl. 13:00

Íslenskir hestar í stökkkappreiðum í Wangen í Svíþjóð - myndina tók Sofie Lathinen Carlsson

Hér fyrir neðan má lesa tillögur Kristins að því hvað þarf að gera til þess að koma á fót veðreiðarstarfsemi á Íslandi

 

 

Í síðustu þremur tölublöðum Eiðfaxa hefur Kristinn Hugason skrifað hugleiðingar sínar um veðreiðar og hver sé ávinningur íslendinga við að koma á fót slíkum viðburðum. Þeim sem vilja lesa sér meira til um veðreiðar er bent á áðurnefndar greinar.


Tillaga mín er sú að við leitum fyrirmyndar hvað okkar veðreiðahald varðar til nágranna okkar og frændþjóða á Norðurlöndunum og þá ekki í gegnum samstarf okkar innan FEIF eða til Íslandshestafélaga í viðkomandi löndum heldur beint til þeirra félaga sem halda utan um veðreiðastarfsemina í viðkomandi löndum.

Samstarf okkar innan FEIF er mikilvægt en ekki fullnægjandi til allrar framtíðar, sem nánar skal skýrt hér á eftir. Samtökin voru stofnuð 1969 og voru og eru enn þá í grunninn áhugamannasamtök, eins og nafn samtakanna bendir til: Föderation Europäisher Islandpferde Freunde, á grunni þessa nafns byggist skammstöfunin en opinbert heiti samtakanna núna er International Federation of Icelandic Horse Associations. Stofnlöndin voru sex en hefur stórfjölgað, eru nú um 20 með um 60 þúsund félagsmenn. Rekstur FEIF byggir á félagsgjöldum, sjálfboðastarfi og tilfallandi fjárhagslegum stuðningi. FEIF er bakland fyrir heimsmeistaramót íslenska hestsins sem fram fara annað hvert ár.

Vissulega er 60 þúsund manns ekki lítil tala en hestamennskan á íslenskum hestum er þó á jaðrinum víða hvað hestamennskuna varðar í heild sinni í viðkomandi löndum og til mikils er að vinna með að auka veg kynsins sem víðast. Við megum þannig ekki lokast inni í heimi Íslandshestamennskunnar eingöngu heldur sækja fram á ný mið. Þetta var nefnd sem starfaði á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og gaf út skýrslu árið 2009 mjög hugleikið, sjá Markaðssetning íslenska hestsins erlendis (http://www.mast.is/Uploads/document/Skyrslur/Markadssetning_isl_hestsins_erlendis.pdf). Ein af tillögum nefndarinnar var að koma íslenska hestinum á Ólympíuleikanna. Á oddinn yrði sett að fá viðurkenningu á töltkeppni (T1) og gæðingaskeiði (PP1) sem hluta af reiðmennskukeppni leikanna, sjá bls. 18 í skýrslu nefndarinnar. Tillaga þessi var kynnt fyrir þáverandi formanni LH og forseta ÍSÍ, við góðar undirtektir en báðir hurfu af vettvangi ekki löngu síðar og málið virðist hafa fallið niður en þegar það var kynnt fyrir FEIF voru undirtektir engar.

Jafnframt því sem leitast yrði við að afla hestamennsku á íslenskum hestum víðari skýrskotunar erlendis, myndu félög innan hestamennskunnar þétta raðirnar. Greinin myndi sameinast félagslega í samræmi við fyrirliggjandi tillögur frá árinu 2016 sem gera félögum eins og Félagi hrossabænda og FT sem hafa atvinnugreinalega skýrskotum og LH með sína Ólympísku skýrskotun að vinna saman, sjá skýrsluna Hreyfing hestamanna – Könnun á möguleikum aukins formlegs samstarfs eða sameiningar (https://www.fhb.is/static/files/skjol/Ymislegt/hreyfing_hestamanna_skyrsla_kh.pdf)

Á bls. 34 til 35 í téðri skýrslu er einmitt lagt til að sameiginlegt rekstrarfélag greinarinnar myndi stofna félag um veðreiðahald, afla þekkingar og leita eftir samstarfi. Stórt og mikilvægt verkefni er að vinna tiltrú á að þarna sé um starfsemi að ræða sem eigi sér tilvistarrétt ekki síður en lottó-ið, spilasalir eða happdrætti landsins og sé ekki skaðvænlegri en sú starfsemi og hjálpi að auki til við að koma fótunum undir starfsemi sem eflir þjóðarhag, rétt eins og hin peningaspilin gera.

Vanda þarf mjög undirbúninginn, félagið sem ég vel vinnuheitið Veðreiðar Íslands ehf. þarf að vera afskaplega vel fjármagnað, það er því félagasamtökunum mikilvægt að fá með sér í lið trausta og fjársterka aðila. Rekstur þess þarf að undirbúa vel með hámarksnýtingu hvers konar tölvu- og snjalltækjatækni og streymisveitna. Því markaðssvæðið þarf nauðsynlega að ná út fyrir Ísland með veðmálum yfir netið. Stjórnvöld þurfum við svo að hafa í liði með okkur bæði upp á leyfisveitingar, mögulega þörf á lagabreytingum og síðast en ekki síst að afla starfseminni tiltrúar. Því svo háttar því miður til að hér á landi er mikil andstaða við veðspil.

Ekki ætla ég að kveða upp úr með það í hvaða greinum ætti að keppa, þ.e. hvort gera ætti tilraun með að taka stökk og brokk upp aftur eða halda sig einungis við skeiðgreinarnar, slíkt þyrfti að kanna m.t.t. áhuga, hestakosts og þeirra valla sem í boði eru. Vellina þarf svo að standsetja og endurhanna að einhverju marki m.t.t. þarfa veðreiðanna, sjá lýsingu á því í síðasta blaði. Síðast en ekki síst þurfum við að sameinast um einn þjóðarleikvang sem yrði okkar aðalvöllur þó að einstakar kappreiðar gætu farið fram mikið víðar. Það svæði yrði flóðlýst með mikilli og fjölþættri aðstöðu, svona við líkingu við Solvalla rétt við Stokkhólm í Svíþjóð. Þó vitaskuld yrði allt minna í sniðum hjá okkur, allavega í byrjun. En mjór er mikils vísir, segir máltækið.

Læt ég lokið hér umfjöllun um möguleika þess að stofna til veðreiðahalds hér á Íslandi, látum nú hendur standa fram úr ermum og efndir fylgja orðum!