miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vatnagarpar koma út í september

1. ágúst 2013 kl. 18:35

Vatnagarparnir sundríða Hvítá á gamla ferjuvaðinu við Auðsholt.

Stikkorð

Vatnagarpar

Jens Einarsson hefur sett saman glæsilega myndabók um sögulega ferð yfir helstu vötn frá Hornarfirði til Selfoss.

Sumarið 2009 fóru átta hestamenná Suðurlandi í nokkuð óvenjulega hestaferð. Riðið var frá Hornafirði til Selfoss og sá „óhefðbundni“ ferðamáti viðhafður að nota engar brýr, en ríða yfir öll vatnsföll á leiðinni og sundríða þar sem aðstæður kröfðust.

Tilgangur þeirra sem þátt tóku í ferðinni var meðal annars sá að vekja athygli á við hvaða aðstæður fólk bjó á Suðurlandi, og í flestum öðrum landshlutum, fyrir ekki svo löngu síðan og hvaða hlutverki íslenski hesturinn gegndi í lífi þess áður en ár voru brúaðar. 

Jens Einarsson hefur sett saman glæsilega myndabók um þessa sögulegu ferð og ber hún heitið „Vatnagarpar“. Rakin er í stuttu máli saga landpóstanna og samgangna á Suðurlandi áður en ár voru brúaðar. Bókin verður fáanleg í verslunum fljótlega í haust.

Helstu vötn sem voru riðin voru Hornafjarðarfljót, Kolgríma, Jökulsá á Breiðamerkursandi, Fjallsá, Skeiðará, Gígjukvísl, Núpsvötn, Djúpá, Hverfisfljót, Skaftá, Kúðafljót, Múlakvísl, Jökulsá á Sólheimasandi, Markarfljót, Eystri- og Vestri-Rangá, Þjórsá, Hvítá og Sog.

Ítarlega er fjallað um bókina í Eiðfaxa sem kom út í byrjun vikunnar. Í næstu viku verður sýnt myndskeið úr ferðinni á eidfaxi.is.


Vatnagarparnir: Gunnar Björnsson, Sævar Kristjánsson, Haraldur Þórarinsson, Hermann Árnason, Jón Þorsteinsson, Oddur Árnason og Kristinn Vilmundarson. Myndin er tekin eftir sundið yfir Hvítá.

Sund yfir vatnsmikil fljót og ár getur verið mikið hættuspil.