mánudagur, 11. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Varaknapar kynntir til leiks

22. janúar 2010 kl. 16:01

Varaknapar kynntir til leiks

Nú hafa öll lið í Meistaradeild VÍS skilað inn tilnefningum um varaknapa og hafa þær verið teknar fyrir á stjórnarfundi deildarinnar.

Eftirfarandi knapar hafa verið samþykktir sem varaknapar fyrir keppnistímabilið 2010:

Í liði Auðsholtshjáleigu er varaknapinn Edda Rún Ragnarsdóttir og kemur það engum á óvart að varaknapi "stelpnaliðsins" eins og þær kalla sig sé kvenmaður. Eddu Rún þarf vart að kynna þar sem hún hefur gert garðinn frægan á keppnisbrautinni frá blautu barnsbeini og meðal annars sigrað tvisvar Landsmót ásamt því að vera margfaldur Íslandsmeistari. Hún er á World Ranking lista í fjórgangi og fimmgangi.

Í liði Árbakka / Hestvits er varaknapinn Austurríkismaðurinn Piet Hoyos. Piet er þekktur knapi um allan heim. Hann hefur keppt með góðum árangri í heimalandi sínu ásamt því að taka þátt í nokkrum heimsmeistaramótum og hefur riðið allmörg úrslit á þeim.

Varaknapi fyrir lið Frumherja er Sigurður Óli Kristinsson. Sigurður Óli hefur verið ötull keppnismaður undanfarin ár og er meðal annars í fimmta sæti á World Ranking lista í 150m skeiði ásamt því að vera á lista í fimmgangi og gæðingaskeiði.

Í liði Líflands er varaknapinn Ævar Örn Guðjónsson. Ævar Örn hefur tekið fullan þátt í keppni og kynbótasýningum undanfarin ár við góðan árangur. Hann er á World Ranking lista í tölti og skeiði.

Í liði Lýsis er varaknapinn Ísleifur Jónasson. Ísleifur var í liði Lýsis í fyrra og endaði í 9. sæti í einsktaklingskeppninni en ákvað að stíga til hliðar þetta árið og vera til vara hjá liðinu. Ísleifur hefur verið virkur í keppni undanfarin en hæst ber að nefna Landsmótssigur í B-flokki 2008.

Varaknapi í Málningarliðinu er Ríkharður Flemming Jensen. Ríkharður var keppandi í deildinni árið 2007 og stóð sig vel þá. Hann er á World Ranking lista í tölti og fjórgangi og hefur keppt mikið undanfarin ár við góðan árangur.

Í liði Top Reiter er varaknapinn Elvar Þormarsson. Elvar stendur ofarlega á World Ranking lista í tölti. Hann hefur sýnt fjöldan allan af hátt dæmdum kynbótahrossum í gegnum árin og einnig verið að gera góða hluti í hringvallargreinum.

Eins og sjá má á ofangreindum lista, þá er mikill metnaður hjá liðunum að hafa sterka varaknapa ef einhver skildi forfallast á tímabilinu. En reglur um forföll má sjá nánar á síðunni www.meistaradeildvis.is, undir 'Um Meistaradeild VÍS.