þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vantar hross í þjálfun

13. ágúst 2013 kl. 08:00

Hólaskóli leitar eftir hrossum í þjálfun nú á haustönn

Nú fer að líða að hausti og skólarnir að byrja. Hólaskóli leitar nú að hrossum í þjálfun og eiga allir áhugasamir að sækja um. Hægt er að sjá allar upplýsingar í tilkynningu frá skólanum sem birtis hér fyrir neðan.

"Í júní var opnað fyrir pantanir í fyrir hross í frumtamningu og þjálfun hjá Hólanemum, á fyrri hluta haustannar. Afar mikil eftirspurn hefur reynst vera eftir plássum í frumtamningu, töluvert meiri en hægt verður að sinna. Haft verður samband við eigendur hrossanna á næstu dögum.

Enn eru laus nokkur pláss í þjálfun á umræddu tímabili, 26. ágúst til 19. október. Þjálfunin hentar fyrir (meira) tamin hross á 5. – 12. vetri, af öllu tagi.  Þó eru ekki tekin gölluð hross eða hættuleg (s.s. hrekkir, rokur, slægð, húslestir). Við komuna heim að Hólum þurfa þau að vera í lágmarksþjálfun. Þetta námskeið er alhliða þjálfun reiðhests með áherslu á bætta svörun ábendinga, jafnvægi, hreyfingar og rými á öllum gangtegundum.

Forkröfur: Hrossin þurfa að vera heilbrigð og laus við galla, svo sem slægð, hrekki, húslesti eða áberandi viðkvæmni eða kaldlyndi.

Hross sem koma í  þjálfun skulu skilyrðislaust vera í þjálfun, og járnuð.

Kostnaður - fyrir allt viðkomandi tímabil (ber ekki virðisaukaskatt), er kr.75.000. 

Innifalið: Allt uppihald, auk járninga (ef við á) og ormalyfsgjafar.

Þeir sem óska eftir að koma hrossum í þjálfunina, geta lagt inn pöntun hér á vefnum.

Öllum umsækjendum eru færðar bestu þakkir." segir í tilkynningu frá Háskólanum á Hólum