þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vangaveltur á sunnudegi - Minnisvarði um Höskuld

24. september 2010 kl. 14:48

Vangaveltur á sunnudegi - Minnisvarði um Höskuld

Eftir að hafa kynnt Dagbjarti Kort Dagbjartssyni í Hrísum hugmyndina, lýsti hann henni í meðfylgjandi vísu...

er hann gerði að minni ósk.

    Heiðursgerði hestamann
    hérna gleður flesta.
    Lengi megi minnast hans
    menn sem fást við hesta.

Í  vor og sumar lét ég verða af því sem mig hafði dreymt lengi um, að festa á filmu annars vegar þá Gísla Höskuldsson frá Hofsstöðum og gæðinginn Hauk, sem nú er 29 vetra og hins vegar Ingimar Sveinsson á Hvanneyri og 26 vetra gæðing hans Pílatus. Á hestasýningu Borgfirðinga sem haldin var í reiðhöll Fáks í Reykjavík 1992 voru þessir  fjórir höfðingjar stolt okkar Vestlendinga og hápunktur þeirrar sýningar.
Þeir Gísli og Ingimar hafa nú fallist á að leggja sitt að mörkum til að reisa megi Höskuldi Eyjólfssyni á Hofsstöðum verðugan minnisvarða. Honum er ætlaður staður við hrossagerði sem hlaðið hefur verið í brekkunni við kirkjuna í Reykholti og til stendur að nefna Höskuldargerði. Ráðgert er að afhjúpa bautastein og vígja gerðið 17. júní 2011.
Páll Guðmundsson listamaður í Húsafelli hefur tekið að sér að höggva í stein mynd af Höskuldi, en jafnframt verður festur á steininn eða við hann minningarskjöldur.
Framlag þeirra og mitt er þá fólgið í því að gefa mönnum kost á að styrkja verkefnið með 5.000 kr.   og fá sem þakklætisvott eintak af myndunum af  þeim á Hauki og Pílatusi.
Formlega hófst söfnunin með því að ég  fór í réttir hér um slóðir með tvo gráa hesta, annan undir trússi Höskuldar,  og  gaf mönnum kost á að skrifa sig á styrktarlista og  fá þá mynddiskinn afhentan. Einnig verður áfram unnt að hafa samband við mig á netfang: gudlaugur@vesturland.is  eða í síma 8 – 61 -59 – 71.
Réttirnar sem ég fór í eru Fljótstungurétt, laugardaginn 11. september, Oddsstaðarétt,  miðvikudaginn 15. september og Þverárrétt,  mánudaginn 20. september. Einnig lagði ég leið mína í Grímsstaðarétt, en þá að vísu hestlaus.

    Einhvern finn ég innri frið,
    þó æði vindar svalir,
    þegar bjartir blasa við
    Borgarfjarðardalir.

Svo kvað Höskuldur og ég veit að margur hefur fundið það sama og hann á sínu eigin skinni sem sinni. Með því  held ég nú ótrauður áfram þessu verkefni,  þakklátur  fyrir að hafa átt hann  sem vin og fyrirmynd í reiðmennsku og jákvæðri lífsafstöðu.

Með góðri kveðju, nú í Reykholti  en lengi áður á Kleppjárnsreykjum,
23. september 2010,
Guðlaugur Óskarsson