laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vangaveltur á Sunnudegi - Gísli B. Björnsson-

18. september 2010 kl. 22:48

Vangaveltur á Sunnudegi - Gísli B. Björnsson-

Hvað segir sagan? Það haustar, sérstakt sumar í lífi hestamanna er að baki og...

nú gefst tími til að líta yfir farinn veg og spyrja spurninga.

Hvar er íslensk hestamennska stödd og hvað veldur?
Mitt svar er: vissulega hefur margt farið vel og víða má sjá framfarir.

* Markviss ræktun er að skila fallegri, stærri og betri hrossum.
* Hrossin búa við betra atlæti en áður, betri haga, fóður, skjól, og betri hús.
* Uppeldi, tamning og þjálfun er í framför.
* Umhirða, snyrtimennska og reiðmennskan er að batna.
* Möguleikar til að hafa tekjur og lifa af hestamennsku hafa aukist.
* Áhugi hefur aukist og meiri virðing er borin fyrir hestamennsku og hestamönnum.

Hvað veldur þessari bættu stöðu?

* Félagsstarf hestamanna er öflugt og vel skipulagt.
   Lýðræðið er virkt, fundir og þing skila niðurstöðum sem eru virtar.
* Forusta hestamanna hefur verið farsæl og notið trúnaðar.
* Hestamenn eiga góða og víðlesna fjölmiðla, tímarit, netútgáfur og mikinn bókakost.
* Menntun hestamanna hefur aukist frá grunni til háskólanáms.
Þessa stöðu má rekja til þeirrar gæfu að hafa átt víðsýna einstaklinga sem hafa aflað sér þekkingar og náð að hrífa með sér marga hverju sinni þannig að stór framfaraskref hafa verið stigin.
Íslenskir og erlendir einstaklingar, með margvíslegan bakgrunn hafa bent okkur á veikleika og leiðir til bóta.
Nefndir verða hér fjórir einstaklingar sem hafa markað spor í hestasögu okkar.

Georg H.F. Schrader (f. 1888) stórefnaður, þýskættaður Bandaríkjamaður kemur til Íslands 1912 og býr á Akureyri til 1915. Hann þekkti vel til hesta og hestamennsku.
Honum fannsta ástæða til að gera Íslendingum grein fyrir því sem honum fannst áfátt í hestamennsku og skrifaði merkilega bók „ Hestar og hestamenn á Íslandi”(1913) Hann byggði  (1913) fyrir  eigið fé hestahótelið Caroline Rest. Honum mislíkaði að sjá ferðahesta standa skjóllausa í öllum veðrum í kaupstaðaferðum.

Daníel Daníelsson (f. 1866) var lærður ljósmyndari sem ferðaðist nokkuð til nágrannalanda m.a. vegna sölu á hrossum og sauðfé og var leiðsögumaður í góðum tengslum við útlenda ferðamenn.
Daníel var einn af stofnendum Fáks og fyrsti formaður félagsins 1922. Bækur hans „Hestar” 1925, „Meðferð hesta”  1932 og  „Í áföngum” 1937 segja okkur frá forustumanni og jafnframt frumkvöðli með víða sýn.

Hvar væri íslensk hestamennska stödd ef Gunnar Bjarnason (f. 1915) kennari og hrossaræktarráðunautur  hefði valið sér annan starfsvettvang? Þessi ótrúlegi hugsjóna- og baráttumaður var í miklu samstarfi við hestamenn erlendis, jafnt áhugamenn sem fræðimenn.
Gunnar vann að stofnun LH 1950 og var frumkvöðull að Landsmótinu 1950.
Hann semur dómstiga þar sem metið er sköpulag og kostir hestsins.
Hann vann ötullega með FEIF og að útflutningi hrossa.

Fjórði einstaklingurinn er Pétur Behrens (f. 1937 í Hamborg)
Hann kom hingað til lands um 1960 og áhrif hans eru mikil á útflutning og samskipti við forystumenn Íslandshestafélaga innan FEIF.
Félag tamningamanna verður til að hans frumkvæði 1979.
Eiðfaxi verður að miklum hluta til að hans tilstuðlan 1977. Bókin „Að temja”  frá 1981 og önnur skrif hans m.a. í Eiðfaxa hafa enn víðtæk áhrif á alla umgengni við hross og fágaða reiðmennsku.
Oft hittir maður fólk innan okkar raða sem heldur að hlutirnir hafa orðið til af sjálfu sér. Sagan segir annað, hún segir frá hugsjónamönnum, málefnum, atburðum og baráttu sem vert er að halda á lofti. Allt sem lýtur að framförum í hestamennsku hefur orðið til fyrir hugsjónir og vinnu einstaklinga sem jafnframt hafa náð öðrum til liðs við sig.

 
                                                           Gísli B. Björnsson