föstudagur, 18. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vaka lengi og skipuleggja sig

28. júní 2016 kl. 18:08

Hafþór Hreiðar og Villimey frá Hafnarfirði

Viðtal við Hafþór Hreiðar

Hafþór Hreiðar Birgisson og Villimey frá Hafnarfirði voru snemma í braut í forkeppni unglingaflokks. Þau áttu glæsilega sýningu og uppskáru 8,62 í einkunn og héldu toppsætinu allt til loka. Eiðfaxi hitti Hafþór að lokinni forkeppninni og kannaði spennustigið.

Það lá beinast við að spyrja Hafþór fyrst af því hvernig tilfinningin væri að standa efstur eftir forkeppnina. ,, Tilfinningin er mjög góð. Markmiðið var alltaf að komast í milliriðil en að fara þangað í efsta sæti er frábært." Hafþór hefur haft í nógu að snúast á Hólum því hann reið merinni Ljósku frá Syðsta - Ósi í B - flokk og var yngsti knapinn í þeim flokki, innan um alla atvinnumennina. En Hafþór og Ljóska fóru í A - úrslit í unglingaflokki á síðasta Landsmóti og ákvað Hafþór að fara með merina í B - flokk í þetta sinn, ,, Það hefði alveg mátt ganga betur með Ljósku en svona er þetta stundum. Gott að leggja líka inn í reynslubankann góða."

Hafþór Hreiðar er ekki bara í hestamennsku því hann æfir fimleika af fullum krafti og hefur keppt fyrir Íslands hönd í áhaldafimleikum. Það vita það flestir að sú íþrótt tekur mikinn tíma og æfingar langar og strangar sem hestamennskan gerir einnig. Hvernig fer 16 ára strákur að því að ná svona langt í báðum greinum? ,, Það er að skipuleggja sig vel og vaka lengi. Stundum get ég lítið sofið en það kemur ekki oft fyrir. Svo er nauðsynlegt að eiga góða fjölskyldu sem keyrir og sækir mig þegar ég þarf að mæta á æfingu og fara í hesthúsið."

Þegar blaðamaður bað Hafþór um að lýsa Villimey var hann fljótur að svara, ,, Viljug og skemmtileg. Betra er að hafa hana góða og með sér. Mér finnst viljug hross skemmtilegri og ef þau komast hratt er það plús."

Blaðamaður þakkar þessum upptekna unglingi fyrir spjallið og óskar honum góðs gengis í milliriðlinum á fimmtudaginn.