fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útivist hrossa engin trygging fyrir bata

Jens Einarsson
1. júní 2010 kl. 11:51

Hestapestin fer sínu fram

Það að hleypa hrossum út er engin trygging fyrir því að veikindatíminn styttist né að einkenni verði minni. Nokkur þekkt dæmi eru um að reiðhross hafa byrjað að hósta tveimur vikum eftir að þeim var sleppt út. Hross sem aðeins höfðu verið með glært nefrennslu áður.

Veiktust eftir tvær vikur úti

Ágúst Ólafsson, prentari á Hellu, segir að glært nefrennsli hafi komið í reiðhrossin hjá sér í apríl. Hann hafi strax hætt að ríða á þeim og sleppt þeim í beitarhólf á útigjöf fyrir tveimur til þremur vikum síðan. Þá hafi nefrennsli nær alveg verið hætt. Um helgina hafi hrossin hins vegar byrjað að hósta og nefrennslið byrjað aftur.

Sama sagan á Akurgerði

Þórður Þorgeirsson, hrossabóndi og tamningamaður á Akurgerði í Ölfusi, hefur svipaða sögu að segja.

„Við settum flestar hryssurnar á tamningastöðinni út í hólf hérna við bæinn fyrir um tveimur vikum síðan. Í þeim hópi voru hryssar sem voru ennþá með einkenni, nefrennsli og hósta, og eins hryssur sem engin einkenni höfðu sýnt. Sumar af veiku hryssunum eru heldur að lagast en aðrar hafa veikst og eru byrjaðar að hósta. Veikin virðist því hafa sinn gang óháð því hvort hrossin eru úti eða inni. Ég tel þó engan vafa á að hrossunum líður betur úti í góðu veðri, en það er gott að hafa þau við hús svo hægt sé að hýsa þau ef gerir kulda og rigningu,“ segir Þórður.

Svipuð hrossapest í Þýskalandi

„Bæði þýskir og íslenskir hestamenn í Þýskalandi telja sig hafa fengið mjög svipaða pest í íslensk hross þar. Og þá eru við ekki að tala um þá þekktu hóstaveiki sem nær öll útflutt íslensk hross fá eftir nokkrar vikur á meginlandinu. Þeirra reynsla er að það tekur veikina nokkra mánuði að fara í gegn og hvíld er eina meðalið. Þeir segjast hafa lent í því að hross sem voru brúkuð veik hafi fengið krónísk einkenni og þau muni aldrei jafna sig,“ segir Þórður.

Tökum nýja stefnu

„Þetta er frekar dapurt ástand. Mörg hrossin á stöðinni hjá okkur eru nú á leið til síns heima og staðan verður svo tekin þegar líður á sumarið. Aðalatriðið núna er að taka nýja stefnu og gera það besta úr hlutunum. Ef þetta er sama veikin og kollegar okkar í Þýskalandi hafa reynslu af þá ættum við að getað haldið hestamót í júlí og ágúst og þá mun aftur birta yfir þessu, segir Þórður Þorgeirsson.