miðvikudagur, 16. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útför Tómasar Ragnarssonar.

27. júlí 2010 kl. 15:57

Útför Tómasar Ragnarssonar.

Útför Tómasar Ragnarssonar fór fram frá Hallgrímskirkju s.l. fimmtudag. Áætlað er að um 1.200 manns hafi verið við útförina enda var kirkjan full út úr dyrum.
Séra Birgir Ásgeirsson jarðsöng. Félagar úr Karlakór Reykjavíkur sungu sálmana. Páll Rósinkrans og Rúna Tómasdóttir fluttu lög sem voru Tómasi kær.

Ragna Þóra Ragnarsdóttir flutti minningu Tómasar.
Ungir knapar frá Fáki stóðu heiðursvörð fyrir utan kirkjuna. Fjórir tamningamenn fóru fyrir líkfylgdinni af stað frá kirkju og síðasta spölinn að Lágafellskirkjugarði þar sem Tómas var jarðaður.
Að útför lokinni var boðið til erfidrykkju í Fáksheimilinu í boði Fáks og Fákskvenna. Sérstakt veitingatjald hafði verið reist við hliðina á Fáksheimilinu. Er talið að a.m.k. 6 – 700 manns hafi mætt í erfidrykkjuna enda þurftu síðbúnir gestir að leggja bílum sínum neðan við reiðhöllina þar sem hvergi var pláss að finna nær Fáksheimilinu.
Það var mál manna að útförin hefði verið afar hugljúf og falleg.
Í anda Tómasar var kappkostað að það væri létt yfir athöfninni og að kirkjugestum gæti liðið vel.