sunnudagur, 21. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útför Einars Öder Magnússonar

27. febrúar 2015 kl. 11:09

Glóðafeykir fylgdi eiganda sínum síðasta spölinn.

Fjölmenni var viðstatt fallega útför Ein­ars Öder Magnús­sonar reiðkennarar og hrossaræktanda í Hall­gríms­kirkju í gær.

Félagar Einars úr landsliði Íslands og framasveit tamningamanna stóðu heiðursvörð. Gæðingurinn Glóðafeykir frá Halakoti fylgdi eiganda sínum síðasta spölinn.

Séra Krist­inn Ágúst Friðfinns­son jarðsöng. Tón­list­in var í hönd­um karla­kórs Kjalnes­inga, Bubba Mort­hens, Lovísu Elísa­betu Sigrún­ar­dótt­ur, Páls Rós­inkr­ans og Lárus­ar Ástmars Hann­es­son­ar.

Einar var einn af okkar snjöllustu reiðmönnum og virtustu reiðkennurum Íslandshestamennskunnar.  Hann var náttúrureiðmaður og hafði næman og djúpan skilning á reiðlist. Hann miðlaði þekkingu sinni í ræðu og riti, kenndi reiðmennsku um heim allan og naut mikillar virðingar hestamanna.

,,Fallinn er frá einn merkasti hestamaður okkar tíma. Fagið hefur misst forystumann. Einar hefur dregið vagninn í þróun reiðmennsku síðustu áratugi og hann hugsaði ávallt heildrænt. Hann hafði hag allrar hestamennskunnar fyrir brjósti og hafði áhuga á að þróa áfram fagið. Hann var iðinn við að kynna sér nýjar aðferðir, tileinka sér þær og miðla um leið og hann bar ávallt virðingu fyrir grunni íslenskrar reiðmennsku," ritar Atli Guðmundsson, vinur Einars, í minningargrein í Eiðfaxa.

Einar Öder var 52 ára þegar hann lést þann 16. febrúar. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Svanhvíti Kristjánsdóttur og fjögur börn, þau Hildi, Magnús, Hákon og Dagmar.