laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útflutningur hrossa hefst aftur í september

Jens Einarsson
11. ágúst 2010 kl. 14:38

Útflutningshross í sóttkví fyrir útflutning

Gert er ráð fyrir að útflutningur hrossa hefjist að nýju fimmtánda september eftir nokkurra mánaða hlé, sem varð vegna hrossapestarinnar. Allmörg hross hafa verið seld til útlanda í sumar og bíða útflutnings. Fyrsta vélin verður til Liege í Belgíu og er gert ráð fyrir að um 30 hross fari með henni. Búist er við að næstu mánuði á eftir fari vél í hverri viku með 10 - 30 hross.

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, segir að verið sé að undirbúa hvernig staðið verði að útflutningi þegar hann hefst að nýju. Gefin verði út tilkynning um það mjög fljótlega. Tryggja verði að ekki fari út hross sem sýni einkenni og að þau þurfi að hafa verið einkennalaus í um það bil 30 daga fyrir útflutningsdag. Hugmyndin sé að hrossum sem bíða útflutngins verði haldið í einangruðum hópum, heima hjá seljanda eða annars staðar, og blandist ekki öðrum hrossum þann tíma. Sýni þau ekki einkenni á þeim tíma, né við heilbrigðisskoðun, sé ekkert því til fyrirstöðu að veita þeim útflutnginsleyfi.