laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útflutningur á frystu sæði er mögulegur

Henk Petersen
22. janúar 2010 kl. 10:16

Mjög dýrt að koma upp löglegri aðstöðu

„Útflutningur á frystu sæði er mögulegur en mjög kostnaðarsamur,“ segir Páll Stefánsson, dýralæknir á Stuðlum. Páll var forstöðumaður Sæðingastöðvarinnar í Gunnarsholti, sem rekin var í nokkur ár en hefur nú verið lögð niður.

Í blaðinu Hestar&Hestamenn, sem kom út í gær, er sagt frá háu verði á frystu sæði úr nokkrum eftirsóttum hestum á meginlandinu. Mjög dýrt væri að flytja sæðið inn til Íslands, ef innflutningur væri á annað borð heimill. Að sama skapi væri útflutningur árennilegur. Árangur með sæðingar á frystu sæði var hins vegar ekki sérlega góður þegar reynt var á sínum tíma.

Tæknilega sambærilegir

Páll Stefánsson segir það ekki rétt að ekki hafi tekist að sæða með frystu sæði í Gunnarsholti, eins og haldið hefur verið fram í Hestar&Hestamenn.

„Okkur tókst að sæða og festa fang í hryssum með frystu sæði. Vandamálið var hins vegar að sæðisgæðin í þeim hestum sem við vorum með á stöðinni voru einfaldlega ekki nógu góð. Það eru ekki nærri allir hestar sem gefa sæði sem þolir vel frystingu. Ef þeir hefðu verið fyrir hendi þá vorum við með alveg sambærilega tækni og þekkingu og kollegar okkar á meginlandinu. Sú tækniþekking, og tækin sem þarf til, eru ennþá til. En aðstaðan er hins vegar farin. Síðan við vorum að fást við þetta hefur orðið þróun í meðferð á sæðinu. Það eru komin betri þynningarefni og íblöndunarefni, sem auka líkurnar á að sæðið lifi,“ segir Páll.

Dýr stofnkostnaður og rekstur

En kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið. Frystingin á sæðinu er aðeins hluti af öllu ferlinu.

„Það kostar mikið umstang og peninga að koma upp löglegri aðstöðu svo heimilt sé að flytja út sæðið. Sæðingastöðvar á Evrópusvæðinu þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá samþykki. Stóðhestarnir þurfa að vera í einangrun á stöðinni í nokkrar vikur eða mánuði, man ekki hvort heldur er, og þurfa að fara í gegnum nákvæma heilbrigðisskoðun svo tryggt sé að ákveðnir sjúkdómar séu ekki fyrir hendi. Útflutningur á sæði er tæknilega mögulegur. En það yrði mjög kostnaðarsamt að koma honum í kring og reksturinn yrði einnig dýr, fyrir fáa hesta, sem ég hef trú á að yrði niðurstaðan ef af yrði.“