miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Úrvalsvekringar

12. október 2016 kl. 15:15

Örvar frá Gljúfri

Fimm hross hlutu einkunnina 10 fyrir skeið í kynbótasýningu sumarið 2016.

Fimm hross hlutu einkunnina 10 fyrir skeið í kynbótadómi á árinu 2016. Voru þetta þau Eðall frá Torfunesi, Fröken frá Bessastöðum, Roði frá Lyngholti, Stáss frá Ytra-Dalsgerði og Örvar frá Gljúfri.

Þeirra yngst er merin Fröken frá Bessastöðum en hún er fædd árið 2011. Hún fékk í kynbótadómi í vor 9,5  fyrir skeið en hlaut 10 fyrir skeið á landsmótinu. Fröken er vel sköpuð hryssa með 8,41 í sköpulagsdóm og fyrir kosti hlaut hún á landsmótinu 7,99. Sýnandi hennar var Jóhann B.Magnússon sem einnig er eigandi ásamt dóttur sinni Fríðu Rós. Faðir Frökenar er Kunningi frá Varmalæk ,sem nú er farinn úr landi, en hann hlaut hæst í kynbótadómi einkunnina 8,5 fyrir skeið en hefur gert það gott bæði í fimmgangi og A-flokk. Þá er Fröken undan Millu frá Árgerði sem hlaut hæst í kynbótadómi 8,5 fyrir skeið en Milla er undan Þorra frá Þúfu í Landeyjum og Bliku frá Árgerði dóttur Ófeigs frá Flugumýri. Gaman verður að fylgjast með þessari meri í framtíðinni og vonandi fá hestaáhugamenn að sjá hana í skeiðgreinum á komandi árum.

Stóðhestarnir Roði frá Lyngholti og Eðall frá Torfunesi eru báðir fæddir árið 2010 og voru því sex vetra á síðastliðnu sumri.
Roði frá Lyngholti hlaut einkunnina 10 fyrir skeið á Landsmóti en Eðall hlaut 10 fyrir skeið tvisvar á síðastliðnu sumri þ.e.a.s. bæði í kynbótadómi í Spretti og einnig á Landsmóti.

Roði frá Lyngholti er undan Ómi frá Kvistum sem er öllum hestamönnum kunnugur, sigurvegari fimm vetra flokks stóðhesta á Landsmóti 2008 á Hellu auk þess að vinna A-flokk á Landsmóti árið 2011. Ómur hlaut sjálfur hæst 9,5 fyrir skeið í kynbótadómi. Móðir Roða er svo klárhryssan Glóð frá Kálfholti en hún var sýnd þrisvar í kynbótadómi og ávallt hlaut hún einkunina 5 fyrir skeið. Glóð er undan Asa frá Kálfholti sem hæst hlaut einkunina 7,5 fyrir skeið og Glæðu frá Kálfholti sem var ósýnd.
Roði er með 8,35 fyrir sköpulag og í hæfileika 8,92 og aðaleinkun 8,69. Sýnandi Roða var Árni Björn Pálsson en eigandi og ræktandi er Skarphéðinn Jóhannesson. Roði er vel skapaður og jafnvígur alhliðagæðingur.

Eðall frá Torfunesi er undan Mátt frá Torfunesi sem er undan Markúsi og Mánadís sem bæði eru frá Torfunesi. Máttur hlaut hæst einkunina 9 fyrir skeið. Móðir Eðals er Elding frá Torfunesi sem hlaut einkunnina 8,5 fyrir skeið. Undan Eldingu hafa verið sýnd þrjú hross Eðall, albróðir hans Eldur frá Torfunesi með 8,60 í aðaleinkunn og Eldey frá Torfunesi sem er með 8,23 í aðaleinkunn. Eðall er ekki einungis dýrmætur ræktunarlega séð vegna úrvals vekurðar heldur ber hann einnig sjalfgæfan lit, bleikkolóttur stjörnóttur. Eðall tók þátt í íþróttakeppni eftir landsmót og hlaut m.a. einkunnina 7,75 í gæðingaskeiði á Íslandsmótinu á Selfossi í sumar. Sýnandi hans í kynbótadómi sem og keppni var Teitur Árnason. Ræktendur eru Ræktunarbúið Torfunesi, Anna Fjóla Gísladóttir og Karyn B MC Farland. Eigandi er Torfunes ehf.

Stáss frá Ytra-Dalsgerði er fædd árið 2009 og var því sjö vetra í sumar. Hún hlaut einkunnina 10 fyrir skeið á kynbótasýningu í Spretti. Stáss er með 8,02 fyrir sköpulag og 8,50 fyrir hæfileika sem gerir aðaleinkunn upp á 8,31. Stáss á ekki langt að sækja vekurðina enda er hún undan Lútu frá Ytra-Dalsgerði sem hlaut hæst í kynbótadómi 9,5 fyrir skeið. Lúta var lengi vel einn af fljótustu vekringum landsins og sigraði til að mynda 150 metra skeið á Landsmótinu 1998 á Melgerðismelum og í Víðdal árið 2000. Sammæðra Stáss er Storð frá Ytra-Dalsgerði sem einnig hlaut 10 fyrir skeið auk þess að vera keppnisvekringur í fremstu röð. Faðir Stáss er Þokki frá Kýrholti sem sjálfur var með í aðaleinkunnina 8,73. Þokki hefur sannað sig sem kynbótahestur og má því til rökstuðnings benda á son hans, Trymbil frá Stóra-Ási sem fékk 10 fyrir skeið í kynbótadómi og hefur gert það gott í keppni auk þess að vera lofandi kynbótahestur. Stáss keppti í sumar bæði í íþrótta- og gæðingakeppni og hlaut einkunnina 8,50 í A-flokk  og í gæðingaskeiði 7,83.  Sýnandi hennar í kynbótadómi og keppni var Ævar Örn Guðjónsson. Ræktendur Hugi Kristinsson og Kristinn Hugason sem jafnframt er eigandi hennar í dag.

Örvar frá Gljúfri er fæddur árið 2008 og er því átta vetra gamall. Hann hlaut einkunnina 10 fyrir skeið í kynbótadómi í Spretti, hann hafði einnig hlotið 10 fyrir skeið á kynbótasýningu á Gaddstaðaflötum sumarið 2015. Örvar er undan Stála frá Kjarri en hann þarf ekki að kynna, margrómaður kynbótahestur sem hefur gefið margan gæðinginn. Móðir Örvars er Ör frá Gljúfri dóttir Hektors frá Akureyri. Ör var tvisvar sýnd í kynbótadómi og hlaut í bæði skiptin 5,0 fyrir skeið. Örvar hlaut í sínum hæsta kynbótadómi 8,06 fyrir sköpulag og 8,90 fyrir hæfileika og aðaleinkunnina 8,56. Örvar tók þátt í gæðingakeppni á Landsmóti og var í þriðja sæti eftir sérstaka forkeppni með 8,83 í einkunn. Árni Björn Pálsson var sýnandi hans í kynbótadómi en Jón Óskar Jóhannesson keppti á honum í gæðingakeppni. Ræktandi er Jón Hólm Stefánsson en eigendur eru Helga María Jónsdóttir og Jóhannes Helgason. Örvar er spennandi hestur sem ekki hefur sagt sitt síðasta í keppni.