fimmtudagur, 17. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Úrtaka fyrir HM2011 á Sörlastöðum í dag

15. júní 2011 kl. 08:28

Gamla kempan Reynir Aðalsteinsson er skráður til leiks í HM úrtöku á Sörlastöðum.

Reynir Aðalsteinsson á meðal keppenda

Fyrri umferð úrtöku fyrir HM2011 í Austurríki fer fram í dag á Sörlastöðum í Hafnarfirði. Seinni umferð fer fram föstudaginn, 17. júní. Úrtakan fer fram samhliða svokölluðu Gullmóti, sem var sett á dagskrá hjá Sörla í fyrra.

Á meðal keppenda eru nokkrir toppar, þar á meðal Viðar Ingólfsson og Tumi frá Stóra-Hofi í tölti, Hinrik Bragason og Glymur frá Flekkudal í fimmgangi, Hulda Gústafsdóttir og Kjuði frá Kirkjuferjuhjáleigu í tölti og fjórgangi, Olil Amble og Kraflar frá Ketilsstöðum í tölti og fjórgangi, Eyjólfur Þorsteinsson og Ósk frá Þingnesi í slaktaumatölti og Sigurður Sigurðarson og Freyðir frá Hafsteinsstöðum í gæðingaskeiði.

Einnig er skráður til leiks Reynir Aðalsteinsson, reiðkennari á Hvanneyri. Hann er margfaldur meistari frá fyrri tíð, en hefur ekki verið áberandi í keppni um nokkurt skeið. Hann keppir í fimmgangi og slaktaumatölti á Sikli frá Sigmundarstöðum.

Í ungmennaflokki eru skráðar til leiks helstu vonarstjörnur okkar í reiðmennsku, Agnes Hekla Árnadóttir á Vigni frá Selfossi, Hekla Katarína Kristinsdóttir á Gautreki frá Torfastöðum, Sara Sigurbjörnsdóttir á Hálfmána frá Skrúð, Ragnar Tómasson á Sleipni frá Árnanesi og Arnar Bjarki Sigurðsson á Röskum frá Sunnuhvoli, svo einhver nöfn séu nefnd.

Mótið hefst klukkan 13.00 með keppni í fimmgangi. Síðasta grein, 250 m skeið, hefst klukkan 20.00.