laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Úrslit: Ljósmyndasamkeppni Eiðfaxa

18. desember 2013 kl. 11:00

Myndin „Feðgin“ eftir Mörtu Gunnarsdóttur hlaut fyrsta sæti í ljósmyndasamkeppni Eiðfaxa 2013

Framúrskarandi þáttaka.

Nú hefur dómnefnd lokið störfum en tæplega fjögur hundruð myndir bárust í keppnina, hver annarri glæsilegri og átti því dómnefndin mjög erfitt val fyrir höndum. Viðfangsefninn voru fjölbreytt og sjónarhornin mörg hver ansi skemmtileg.

1.sæti hlýtur Marta Gunnarsdóttir fyrir mynd sína „Feðgin" og fær þar með folatoll undir Spuna frá Vesturkoti og fría áskrift að Eiðfaxa í ár.

Þarna má sjá vel útfærða silúettu, sem lýsir fallegu sambandi milli manns hests og barns. „Myndin er af þeim feðginum Sigvalda og Elísabetu Líf sem situr hann Leiftur frá Búðardal. Hún er tekin síðla sumars í sveitinni okkar á Hamraendum í Dölum í kvöldsólinni. Í myndinni finnst mér ég ná að fanga fallegt sambandi milli dóttur og föður og ekki síður það augnablik sem við flest höfum upplifað með hestinum þegar hann gefur okkur hvað mest af sér. Augnablikin geta verið margvísleg en þarna er það samofið af fallegu sólarlagi og þremur vinum á góðri stundu." segir Marta og óskar Eiðfaxi henni innilega til hamingju með sigurinn.

2. Sæti hlaut Hafliði Gíslason fyrir myndina „Gleðistund í Húnavatni."  Myndin er uppfull af orku og gleði, þetta er það sem hestaferðir snúast um. „ Myndin er tekin í hestaferð í Húnavatni á leiðinni frá Þingeyrum. Hesturinn heitir Fannar frá Árholti og þessi hamingjusami knapi heitir Karin Bergeå." Hafliði hlýtur prentun á striga, myndavélatösku og fría áskrift að Eiðfaxa í ár.

3.Sæti hlaut Hekla Hermundsdóttir fyrir myndina „Ronja og Ísak." Klassísk og skemmtileg mynd, vel innrömmuð. „ Þarna er merin Ronja með hestfolaldið Ísak frá Ásmundarstöðum, Ísak fótbrotnaði eftir fæðingu og varð að dvelja 7 vikur á spítala.  Hekla hlýtur prentun á striga og fría áskrift að Eiðfaxa í ár.

Meira um ljósmyndasamkeppnina í Jólablaði Eiðfaxa sem er stútfullt af áhugaverðu efni fyrir hestamanninn. Blaðið er á leið til áskrifenda en hægt er að panta áskrift í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is.