þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppsveitadeildin

11. mars 2017 kl. 16:36

Lukku-Láki frá Stóra-Vatnsskarði og Hans Þór Hilmarsson

Úrslit úr spennandi keppni í fimmgangi

Sigurvegarar í fimmgangi í Uppsveitadeildinni 2017 urðu þeir félagar Hans Þór Hilmarsson og Lukku Láki frá Stóra Vatnsskarði eftir harða keppni við sigurvegara síðasta árs.

Fimmgangs keppni Uppsveitadeildarinnar 2017 fór fram í Reiðhöllinni á Flúðum, föstudagskvöldið 10. mars. Uppsveitadeildin er ávalt fjölsótt og áhorfendur biðu spenntir eftir keppninni. Úrvalshross voru skráð til keppni og knáir knapar úr Uppsveitunum tilbúnir í slaginn.

Eftir lipra forkeppni stóðu þeir Matthías Leó Matthíasson og Oddaverji frá Leirubakka efstir með einkunnina 7,0. Næst á eftir kom Hanne Smidesang og Sæmundur frá Vesturkoti með einkunnina 6,57. Jafnir inn í A úrslit voru þeir Hermann Þór Karlsson og Von frá Efri Brúnavöllum I og Þórarinn Ragnarsson á Hildingi frá Bergi með einkunnina 6,40.

Nokkuð á eftir með einkunnina 6,17 stóðu þær efstar í B úrslitum, Fanney Guðrún Valsdóttir og Árdís frá Litlalandi. Hans Þór Hilmarsson og Lukku Láki frá Stóra Vatnsskarði komu næstir með 6,13 í einkunn. Þriðju inn í B úrslitin komu þau Guðjón Sigurliði Sigurðsson og Flauta frá Kolsholti 3 með 5,93, þar á eftir voru þau Óskar Örn Hróbjartsson og Fiðla frá Galtastöðum með 5,83. Gunnlaugur Bjarnason og Ída frá Hlemmiskeiði 3 voru svo síðust inn í B úrslit með einkunnina 5,57.

Eftir hlé var komið að keppninni í B úrslitum. Hestar og knapar enn nokkuð heitir eftir forkeppnina, en engir eins og Hans Þór Hilmarsson og Lukku Láki frá Vatnsskarði. Strax eftir tölt sýninguna varð ljóst að þeir ætluðu sér í A úrslitin. Það varð enda ljóst í lokin að þeir stóðu efstir með einkunnina 7,12. Næst á eftir urðu þau Guðjón Sigurliði Sigurðsson og Flauta frá Kolshóli 3 með einkunnina 6,40. Í þriðja sæti í B úrslitum enduðu Óskar Örn Hróbjartsson og Fiðla frá Galtarstöðum með 6,21 í einkunn. Skeiðið varð Fanneyju Guðrúnu Valsdóttur og Árdísi frá Litlalandi erfitt. Þær fengu 5,48 í einkunn. Lestina ráku Gunnlaugur Bjarnason og Ída frá Hlemmiskeiði 3 með 4,43 í lokaeinkunn.

Nú voru þeir félagar Hans og Lukku Láki komnir með blóð á tennurnar. A úrslit að hefjast og erfiðir andstæðingar í hópnum. Strax eftir töltkeppnina stóðu sigurvegarar síðasta árs, Matthías Leó Matthíasson og Oddaverji frá Leirubakka, ásamt Hans og Lukku Láka framar öðrum keppendum. Þessir tveir héldu uppteknum hætti í brokki og voru komnir með nokkuð forskot að því loknu. Fetið áttu þeir Hans og Lukku Láki, en Þórarinn Ragnarsson og Hildingur frá Bergi sýndu líka gott fet. Eftir stökk voru Hans og Lukku Láki komnir með forskot sem dugði til sigurs þrátt fyrir gott skeið hjá Matthíasi og Oddaverja. Þórarinn og Hildingur sýndu líka gott skeið og drógu þá aðeins á þá tvo efstu.

Það fór því þannig að Hans Þór Hilmarsson og Lukku Láki frá Stóra Vatnsskarði sigruðu fimmganginn með 7,29 í einkunn. Næstir komu þeir Matthías Leó Matthíasson og Oddaverji frá Leirubakka með einkunnina 7,21. Í þriðja sæti með 6,69 urðu Þórarinn Ragnarsson og Hildingur frá Bergi. Rétt á eftir komu Hanne Smidesang og Sæmundur frá Vesturkoti með 6,67 í einkunn. Í fimmta sæti urðu þau Hermann Þór Karlsson og Von frá Efri Brúnavöllum I með einkunnina 6,29

Hörð keppni er á meðal stigahæstu knapa en Vesturkot hefur náð góðu forskoti..

Lokakvöld Uppsveitadeildarinnar fer fram föstudagskvöldið 31. mars á Flúðum. Þá verður keppt í tölti og fljúgandi skeiði.