laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppskeruhátíð hestamanna

3. nóvember 2016 kl. 10:00

Hrímnir frá Ósi, knapi Guðmundur Björgvinsson.

Upprifjun á knapaverðlaunum ársins 2015

Nú eru einungis tveir dagar þangað til uppskeruhátíð hestamanna fer fram í Gullhömrum, þar verður engu til sparað. Matseðillinn glæsilegur, stemmingin frábær og nú síðast bárust fréttir af því að Guðbjörg Viðja Antonsdóttir muni koma og syngja fyrir hátíðargesti. Spennan fyrir kvöldinu er alltaf mikil enda eru hestamenn mikið gleðifólk. Mörgum finnst það þó vera mest spennandi að vita hvaða knapi hlýtur titillinn knapi ársins í hverjum flokki.
Að gamni birtir Eiðfaxi hér þá sem hlutu knapa ársins í hverjum flokki í fyrra og lýsingu á þeirra afrekum.

    

Knapi ársins 2015 er Guðmundur Björgvinsson.
Guðmundur hampaði heimsmeistaratitli nú í ár í fjórgangi á Hrímni frá Ósi, en þeir félagar urðu einnig Íslandsmeistarar í sömu grein. Guðmundur hefur þó ekki einungis verið virkur í hringvallagreinum þetta árið, heldur gerði hann einnig mjög góða hluti á kynbótavellinum. Ber þar helst að nefna sýningu hans á Garúnu frá Árbæ, sem varð heimsmeistari í flokki 6 vetra hryssna á heimsmeistaramótinu og Ríkey frá Flekkudal, sem varð önnur í flokki 5 vetra hryssna. Hann var einnig tilnefndur sem íþróttaknapi ársins.

Aðrir tilnefndir
Árni Björn Pálsson
Kristín Lárusdóttir
Reynir Örn Pálmason
Teitur Árnason

 

Íþróttaknapi ársins 2015 er Kristín Lárusdóttir.
Kristín átti hug og hjörtu allra hestamanna þegar hún fór Krýsuvíkurleiðina að sigri í tölti á heimsmeistaramótinu á hesti sínum Þokka frá Efstu-Grund, ásamt því að vera 5. í A-úrslitum í fjórgangi á HM. Hún og Þokki gerðu góða hluti í vor á keppnisbrautinni, m.a. var hún í 2. sæti í tölti á Íslandsmóti og náðu góðum árangri í bæði tölti og fjórgangi.

Aðrir tilnefndir
Guðmundur Björgvinsson
Reynir Örn Pálmason
Sigurbjörn Bárðarson
Teitur Árnason 

 

Gæðingaknapi ársins 2015 er Kári Steinsson.
Kári er einn af okkar ungu og upprennandi knöpum hér á landi. Hann fór mikinn á Fjórðungsmóti Austurlands, en það var stærsta gæðingakeppnin í ár. Kári sigraði B-flokkinn á Klerk frá Bjarnanesi og var svo í 2. sæti í A-flokki á Binný frá Björgum.  

 

Aðrir tilnefndir
Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir
Jakob Svavar Sigurðsson
Jóhann K Ragnarsson
Siguroddur Pétursson 

 

Skeiðknapi ársins 2015 er Teitur Árnason.
Teitur náði frábærum árangri í skeiðgreinum á árinu, ber þá helst að nefna heimsmeistaratitill í gæðingaskeiði á Tuma frá Borgarhóli, ásamt því að slá heimsmet og bronsverðlaun í 250 metra skeiði. Teitur er einn af okkar helstu ungu og upprennandi knöpum hér á landi, sýnir ávallt fyrirmyndar reiðmennsku og hefur einnig verið að ganga mjög vel á kynbótabrautinni að undanförnu. Teitur hlaut einnig titilinn Skeiðknapi ársins 2014. 

Aðrir tilnefndir
Bjarni Bjarnason
Gústaf Ásgeir Hinriksson
Sigurbjörn Bárðarson
Ævar Örn Guðjónsson 

 

Kynbótaknapi ársins 2015 er Daníel Jónsson. 
Daníel státar af frábærum árangri á kynbótabrautinni nú í ár, sem og mörg ár á undan, en hann hlaut þennan titil einnig í fyrra, kynbótaknapi ársins 2014. Hann sýndi m.a. Glóðafeyki frá Halakoti, sem hlaut hæsta hæfileikadóm ársins og varð einnig heimsmeistari í flokki stóðhesta 7 vetra og eldri. Daníel sýndi 70 fullnaðar sýningar á árinu, en meðaltal aðaleinkunnar var 8.14 og af þessum 70 sýningum voru 70% til 1. verðlauna.

Aðrir tilnefndir
Árni Björn Pálsson
Guðmundur Björgvinsson
Helga Una Björnsdóttir
Jakob Svavar Sigurðsson

 

Efnilegasti knapinn 2015 er Jóhanna Margrét Snorradóttir.
Jóhanna Margrét er ung og á uppleið, en hún náði glæsilegum árangri á árinu. Hún fór með landsliði Íslands á heimsmeistaramót í Herning í ungmennaflokki. Hún var í 2. sæti í fimmgangi ungmenna á Íslandsmóti og einnig samanlagður sigurvegari ungmenna á því móti. Hún og Stimpill frá Vatni hlutu svo silfrið í slaktaumatölti ungmenna á HM, voru í 7. sæti í fjórgangi ungmenna og voru því í 4. sæti í samanlögðum sigurvegara á HM í ungmennaflokki. 

Aðrir tilnefndir
Fanndís Viðarsdóttir
Guðmunda Ellen Sigurðardóttir
Konráð Axel Gylfason
Róbert Bergmann