fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppskeruhátíð hestamanna 5. nóvember

3. október 2011 kl. 11:43

Uppskeruhátíð hestamanna 5. nóvember

Uppskeruhátíð hestamanna verður haldin á Broadway laugardaginn 5. nóvember. Dagskrá hátíðarinnar verður hefðbundin þar sem Haraldur Þórarinsson formaður Landssambands hestamannafélaga setur hátíðina og eftir það verður veislustjórnin í höndum Halldórs Gylfasonar leikara.

Að venju eru knapar heiðraðir og valdir knapar ársins í sex flokkum: efnilegasti knapinn, skeiðknapinn, íþróttaknapinn, gæðingaknapinn, kynbótaknapinn og knapi ársins. Önnur verðlaun sem afhent verða eru „heiðursverðlaun LH“ og „ræktun keppnishrossa“.

Þriggja rétta hátíðarkvöldverður verður framreiddur kl. 20:00 en húsið opnar kl. 19:00 með fordrykk. Boðið verður upp á laxatvennu á salati í forrétt, lambainnralæri í aðalrétt og desert a la chef í eftirrétt.

 

Miðasalan verður með breyttu sniði í ár og hefst miðasalan 10. október kl. 15:00 og verður opin til kl. 18:00. Einnig verður miðasalan opin 11. og 12. október milli 15:00 og 18:00. Eftir það verður miðasalan opin alla mánudaga fram að hátíðinni milli kl. 15:00 og 18:00. Athugið að fólk verður að mæta á staðinn til að kaupa miða og greiða fyrir öll þau sæti sem það vill taka frá.

Það verður svo hljómsveitin Von sem heldur uppi stuðinu og gestasöngvari hjá þeim verður Matti Matt, betur þekktur sem Matti í Pöpunum.

Verð á borðhald og ball er kr. 7.900 en kr. 2.500 bara á ballið.

Hestamenn eru hvattir til að taka daginn frá og skapa góða stemningu fyrir kvöldinu, enda mikið búið að vera um að vera í hestaheiminum á þessu ári, bæði landsmót og heimsmeistaramót auk fjölda annara skemmtilegra móta og viðburða.