miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppskeruhátíð Æskulýðsnefndar Léttis

17. október 2011 kl. 16:50

Uppskeruhátíð Æskulýðsnefndar Léttis

Frá Æskulýðsnefnd Léttis berst eftirfarandi pistill um fjöruga uppskeruhátíð:

Föstudaginn 14 oktober var haldin uppskeruhátið æskulýðsnefndar Léttis í Toppreiter höllinni á Akureyri. Mjög góð mæting var og skemmtu sér allir vel.   Þeir Höskuldur Jónsson og Ólafur Svansson úr æskulýðsnefnd Léttis grilluðu  hamborgara fyrir hópinn, Lina Eriksson stjórnaði svo  skemmtilegum  leikjum.

Allir sem tóku þátt i reiðnámskeiðum á vegum félagsins  á árinu fengu viðurkenningarskjal. Fimm krakkar fengu sérstök verðlaun fyrir bestu mætingar á námskeiðin.  Þau eru:  Valgerður Sigurbergsdóttir, Guðrún Linda og Hákon Valur Sumarliðabörn, Aron Alfreðsson og Þóra Höskuldsdóttir. Valgerður Sigurbergsdóttir fékk einnig verðlaun fyrir mestu framfarir á námskeiðum á árinu.

Það er alveg ljóst að þessir krakkar sem hafa verið að sækja námskeið og hafa tekið þátt í viðburðum æskulýðsnefndar félagsins, hafa tekið miklum framförum  og vonandi halda allir þessir krakkar áfram að sækja námskeið í hestamennskunni  sem í boði verða, og með því styrkjast þau og verða betri knapar og hestamenn í víðum skilningi.    Það er verið að vinna mjög gott og öflugt æskulýðstarf hjá félaginu okkar og hefur tilkoma reiðhallarinnar gjörbreytt öllum möguleikum barna, unglinga og ungmenna til að nema hestamennsku hér í bæ.

Þá var komið að því að veita verðlaun fyrir góðan árangur á árinu og eftirtaldir hlutu viðurkenningar fyrir árangur í keppni á árinu 2011:  Egill Már Þórsson var Gæðingakeppnis knapi ársins í barnaflokki.  Nanna Lind Stefánsdóttir hreppti þennan heiður í unglingaflokki.

Sylvia Sól Guðmundsdóttir var svo valinn  knapi ársins í Barnaflokki og Ólafur Göran Ólafsson Gros valinn knapi ársins í Unglingaflokki.

                Hestamannafélagið Léttir óskar öllum krökkunum til hamingju með árangurinn.

Framundan er nýtt keppnistímabil og vill æskulýðsnefnd Léttis þakka öllum sem með einum eða öðrum hætti studdu við starf nefndarinnar  á árinu sem er að líða, og um leið vill æskulýðsnefnd sem og Hestamannafélagið Léttir hvetja krakkana að vera dugleg í skólanum sínum og mæta svo sterk til leiks aftur þegar vetrardagskrá félagsins fer í gang.