föstudagur, 18. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Upprennandi stjörnur koma fram

9. apríl 2015 kl. 20:00

Konsert frá Hofi kemur fram á Stóðhestaveislunni.

Uppselt er á Stóðhestaveisluna sem fram fer á laugardag.

Uppselt er á Stóðhestaveisluna sem haldin verður í Sprettshöllinni laugardaginn 11. apríl, skv, tilkynningu.

"Hátt í 60 snilldarhross munu gleðja augað og alveg óhætt að lofa áhorfendum góðum skammti af gæsahúð. Á meðal góðra gesta má nefna eina af kynbótastjörnum síðasta árs, heimsmethafann Konsert frá Hofi, sem kemur nú fram í fyrsta sinn síðan á Landsmóti í fyrra. Fleiri ungstirni mæta á svæðið, t.d. þeir Erill frá Einhamri, Herkúles frá Ragnheiðarstöðum og Ljósvaki frá Valstrýtu - allt saman upprennandi stjörnur í hrossaræktinni.

Glæsilegir klárhestar munu einnig mæta í bunkum, t.d. þeir Andri frá Vatnsleysu, Bragur frá Ytri-Hól, Hreyfill frá Vorsabæ, Hringur frá Gunnarstöðum og Hrímnir frá Ósi svo einhverjir séu nefndir.

Afkvæmahópar verða einnig á sínum stað. Heiðurshestur sýningarinnar, Sær frá Bakkakoti, verður með sína fulltrúa á svæðinu auk þess sem afkvæmi Geisla frá Sælukoti, Sólons frá Skáney, Vilmundar frá Feti og fleiri góðra kynbótahesta mæta á svæðið.

Af fleiri frábærum hrossum sem munu gleðja augað, þá má nefna Krók frá Ytra-Dalsgerði, bræðurna Álffinn og Álfarinn frá Syðri-Gegnishólum, Hryn frá Hrísdal, Blæ og Eld frá Torfunesi, Hrafn frá Efri-Rauðalæk og Kolskegg frá Kjarnholtum, auk allra hinna snillinganna sem ekki er pláss til að telja upp hér," segir í tilkynningu frá aðstandendum sýningarinnar. Stóðhestaveislan hefst klukkan 20:00 á laugardaginn. Húsið opnar klukkan 17:00 og verður opnað inn í sal kl. 18:00, því er fólk hvatt til að vera stundvíslega á ferðinni.