fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Unnu með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi

21. október 2014 kl. 13:40

Fráfarandi stjórn LH gengur út af Landsþinginu.

Yfirlýsing frá fráfarandi stjórn LH.

Fráfarandi stjórn LH hefur sent fá sér yfirlýsingu vegna atburðanna á Landsþingi LH um helgina. Þar segjast þau standa þétt við bak fráfarandi formanns og að þau hafi tekið ákvarðanir með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Hér er tilkynningin:

„Í ljósi atburðarrásar á Landsþingi LH dagana 17. og 18. október 2014 viljum við koma því á framfæri að það var sameiginleg ákvörðun fráfarandi stjórnar að segja af sér þinginu um helgina í framhaldi af afsögn formannsins Haraldar Þórarinssonar. Eins og fram kom í máli Haraldar Þórarinssonar þá hörmum við þessa atburðarás og í ljósi stöðunnar þá töldum við þetta rétta ákvörðun.   Að beiðni formanna allra félaganna tóku fráfarandi stjórnarmenn að sér að starfa sem starfstjórn fram að framhaldi þingfundar þann 8.nóvember.  Formaður starfsstjórnarinnar er Sigurður Ævarsson.

Við stöndum þétt við bak fráfarandi formanns LH, Haralds Þórarinssonar. Við höfum unnið með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi og tekið ákvarðanir út frá því.

Ákveðið var að koma hreint fram og heiðarlega fyrir Landsþing og draga til baka viljayfirlýsingu við Gullhyl ehf. um að halda landsmót hestmanna árið 2016. Með því gerðum við ráð fyrir því að fá málefnalegar umræður um landsmót hestamanna og framtíð þeirra. Svo varð ekki.

Við töldum það réttast að draga viljayfirlýsingu við Gullhyl ehf. til baka og færa mótið á þann stað sem við teljum að mót á borð við landsmót þarfnist. Við viljum einnig árétta það að engin lög eða reglur hafa verið brotnar af okkar hálfu.

Umræðan sem orðið hefur innan sem utan hreyfingarinnar í kjölfar þessa, er okkur hestamönnum ekki til framdráttar.  Ósannindi og ærumeiðingar hafa átt sér stað í garð fyrrum formanns og stjórnarmanna og er það miður.

Við viljum ítreka það að við höfum unnið með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi og vonum að svo verði einnig hjá þeim sem taka við.

Við óskum hestamönnum velfarnaðar í framtíðinni.“