mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Unnið með hestinn á leiðtoganámskeiði

3. október 2011 kl. 11:38

Unnið með hestinn á leiðtoganámskeiði

Í næstu viku hefst leiðtoganámskeið sem Hestamennt stendur fyrir handa börnum á aldrinum 9-12 ára. Nemendur munu þá í sjö vikur fá fræðslu og þjálfun í samskiptum, samvinnu, framkomu, stjórnun, lestri líkamstjáningar og samfélagslegri ábyrgð og er kennslan sett upp í kringum samskipti við hesta. Þær Berglind Árnadóttir og Þórhildur Þórhallsdóttir hjá Hestamennt hafa undanfarið ár staðið fyrir fræðslu og námskeiðum þar sem eiginleika íslenska hestsins eru nýttir á frumlegan máta og standa m.a. fyrir reiðþjálfun fatlaðra í Mosfellsbæ með frábærum árangri.

Á þessu nýstárlega námskeiði er unnið með lykilþætti leiðtogafærni en þungamiðjan er, að sögn Þórhildar, ábyrgð frá ýmsum hliðum. „Við erum báðar þeirra skoðunnar að menntun barna og unglinga sé of bókleg. Við settum því saman þetta námskeið sem byggir á samskiptaþjálfun þar sem unnið er með styrkleika hvers einstaklings. Við notum hestanna til að gera þátttakendur samskiptalæsari, enda eru hestarnir svo næmir og því er mjög lærdómsríkt að nota þá á þennan hátt. Krakkarnir eru ekki á reiðnámskeiði, heldur eru þeir að vinna með hestinum og fara í sjálfsstyrkingaleiki með hestinum. Krakkarnir munu taka þátt í góðgerðastarfi, læra ábyrgðarfulla framkomu og ábyrgð í öllum samskiptum.“

Námskeiðið var haldið í fyrsta skipti í fyrra og voru þá krakkar úr grunnskóla Mosfellsbæjar þátttakendur. Góður rómur var gerður að námskeiðinu að sögn Þórhildar, krakkarnir lýstu ánægju sinni og foreldrar greindu áhrifin sem námskeiðið hafði á börnin.

„Leiðtoganámskeiðið er byggt upp á þekkingu okkar úr ýmsum áttum. Báðar höfum við starfað í unglingakennslu í mörg ár og erum báðar á kafi í hestamennsku og ræktun. Ég starfaði í nokkur ár við þjálfun í samskiptum á vinnustöðum. Þar kynntist ég því hvernig hestar eru notaðir víða erlendis við þess konar þjálfun, einnig er þekkt hvernig má nota þá í meðferðarskyni. Hestar geta kennt okkur svo margt um samskipti,“ segir Þórhildur.

Leiðtoganámskeið Hestmenntar fer fram á félagssvæði hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ, bæði í félagsheimilinu og reiðhöllinni. Kennsla fer fram á miðvikudögum milli kl. 15-17 og þrjá laugardaga í nóvember frá kl. 10-12 (5.,  12. og 19. nóv.), alls 20 klukkustundir.

Hámarksfjöldi þátttakenda er tólf og er verð 45.000 kr. Nánari upplýsingar um námskeiðið má nálgast á heimasíðu Hestamennt en skráning fer fram á hestamennt@hestamennt.is.