þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Unn Krogen ríður upp á íslensku

31. janúar 2011 kl. 11:43

Unn Krogen

Búin að prófa allt og komin í hring

Norska reiðkonan og hestaþjálfarinn Unn Krogen var með sýnikennslu og reiðnámskeið í Rangárhöllinni um helgina. Áherslur hennar komu nokkuð á óvart og minntu einna mest á gömlu góðu íslensku reiðmennskuna. Sjálf segist hún vera búin að prófa allt í reiðmennsku á íslenskum hestum og hún sé komin í hring.

Elka Guðmundsdóttir, blaðamaður Hestablaðsins, fylgdist með námskeiðinu. Hún segir að mest hafi komið á óvart hvernig Unn vill þjálfa töltið í dag.

„Hún vill þjálfa hestinn mest á tölti og hafa hann reistan á töltinu, að sjálfssögðu ekki ofreistan, en reistan og frjálsan,“ segir Elka. „Hún leggur mikla áherslu á að takturinn sé réttur; fyrst að finna réttan takt og vinna síðan út frá því. Taumsambandið létt en stöðugt. Skilaboð í gegnum taum séu aðeins með litlum hreyfingum fingra.

Unn segist vera búin að prófa allt sem í boði er við þjálfun íslenskra hesta. Reynslan hafi kennt henni að það að þjálfa hestinn lágreistan á tölti bjóði heim vandamálum og geti spillt takti og hreyfingum. Óhætt sé að þjálfa hestinn lágreistan á feti og brokki, en ekki á tölti og stökki.

Hún telur líka að of mikil þjálfun á baug með hestinn sveigðan sé ekki gott fyrir íslenskan töltara og skeiðhest. Einkum ung hross. Hún segir að betra sé að þjálfa ung hross bein í venjulegum reiðtúrum, leyfa þeim að finna jafnvægið og styrkjast áður en farið er í flóknari æfingar. En umfram allt sé lykilatriðið að ríða hestinum beint fram; fá hann viljugan, reistan og frjálsan.

Unn Krogen verður í viðtali í Hestablaðinu sem kemur út 17. febrúar.