laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Unir sér best á baki - Viðtal við Önnu Kristínu Friðriksdóttur

30. október 2011 kl. 12:22

Unir sér best á baki - Viðtal við Önnu Kristínu Friðriksdóttur

Anna Kristín Friðriksdóttir er 17 ára hestakona frá Grund í Svarfaðardal hefur verið í kringum hesta síðan hún man eftir sér. Hún er metnaðarfull í hestamennskunni  og unir sér hvergi betur en í kringum hestana.  Á þessu ári hefur þessi káta Hringsstúlka og Glaður frá Grund látið mikið að sér kveða á keppnisbrautinni, bæði norðanheiða og sunnan.  Þau stóðu sig t.a.m. ákaflega vel á sl. Landsmóti, kepptu þar í B-úrslitum og lauk keppni í 9. sæti Unglingaflokks. Á Íslandsmóti yngri flokka nú síðsumars mætti hún svo með hryssuna Ölun frá Grund í töltkeppni, þar sem hún varð í 5. sæti. Í fjórgangskeppninni öttu þau Glaður svo aftur kappi í B-úrslitum sem þau sigruðu og luku keppni  í 5. sæti. Þrátt fyrir að vera mikil keppniskona, gerir hún ekki upp á milli keppnisþátttöku og hestaferða, enda þykir henni allt sem tengist hestamennsku jafn skemmtilegt.

Eiðfaxi lagði nokkrar spurningar fyrir þessa fyrirmyndarhestakonu.

- Hvenær kviknaði áhugi þinn á hestum? Hvenær byrjaðir þú að stunda hestamennsku?
Áhugi minn á hestamennsku hefur alltaf verið til staðar. Hér á Grund búum við með hesta, kýr og kindur en ég hef alltaf viljað frekast vera í kringum hestana. Allt hefur snúist um hesta hjá mér síðan ég man eftir mér. Foreldrar mínir stunda hestamennskuna aðallega sem áhugamál og ég fór mjög ung að fara í hesthúsið með pabba. Þó ég hafi ekki getað farið í útreiðartúra með honum strax fannst mér alltaf svo gaman að snúast í kringum hestana.
Fyrsti hesturinn minn hét Trölli og þegar ég var í kringum 7 ára var það eini hesturinn sem ég gat farið á í útreiðartúr. Ég fór á hann á hverjum einasta degi, helst í mjög langan útreiðartúr og reyndi helst alltaf að vera mjög lengi því ég gat ekki farið á bak á fleiri hestum.

-Hvað finnst þér skemmtilegast við hestamennskuna?
Hestar eru einstök dýr, þeir eru eiginlega bestu vinir mínir. Mér finnst allar hliðar hestamennnskunnar skemmtilegar. Það er alveg jafn gaman að keppa og að fara í hestaferðir, og að þjálfa keppnishesta og að byrja að temja tryppi.

-Áttu þér eftirlætis hest?
Glaður frá Grund er minn uppáhalds hestur í dag. Hann er ljúfur og rólegur, einstakur gæðingur. Ég treysti honum fullkomnlega, hægt væri að setja barn á bak á hann. Ég þjálfa hann sjálf fyrir mót en fæ mikla aðstoð frá Sölva Sigurðarsyni. Það rosalega gaman að hafa tækifæri á að keppa á góðum hesti úr ræktun fjölskyldunnar. Við stefnum að sjálfsögðu á  að keppa aftur á Landsmóti á næsta ári.

-Afhverju er gaman að keppa?
Í keppni kemst maður að því hvar maður stendur miðað við aðra. Maður þarf líka að þjálfa mikið og leggja mikla vinnu í undirbúning til þess að ná góðum árangri.

- Hver er besti hestur sem þú hefur setið?
Það er mjög erfitt að gera upp á milli, ég hef fengið að prófað helling af hestum. Einu sinni fékk ég að sitja Vilmund frá Feti hjá Antoni Páli Níelssyni, ætli hann sé ekki einn af þeim bestu sem ég hef setið, hann er líka rosalega vel þjálfaður.

- Pælir þú eitthvað í hrossarækt?
Já aðeins. Ég mun fá mitt fyrsta folald næsta sumar undan hryssu sem ég  keypti mér fyrir nokkrum árum. Hún heitir Snerra frá Jarðbrú og  er undan Andvara frá Ey og Völu frá Jarðbrú. Ég hélt henni undir ungan fola sem heitir Vængur frá Grund, hann er undan Ölun frá Grund og Tind frá Varmalæk.

-Hvaða hest hefðir þú viljað taka heim með þér af síðasta Landsmóti og afhverju?
Það er  rosalega erfitt að nefna bara einn hest, úrvalið var svo mikið og svo margir mjög góðir hestar. En bæði Spuni frá Vesturkoti og Ómur frá Kvistum eru mér minnistæðir. Báðir eru þeir kraftmiklir, það geislar af þeim.

-Áttu þér fyrirmynd/ir í hestamennskunni ?
Sölvi Sigurðar og Anton Páll eru mínar aðal fyrirmyndir. Þeir hafa báðir hjálpað mér mjög mikið í öllu sem tengist hestamennskunni . Sölvi hefur hjálpað mér mikið síðustu ár með Glað og á hann mikinn hlut í því hversu vel mér hefur gengið með hann. Hann aðstoðaði mig mjög mikið í sumar og fylgdi mér algjörlega í gegnum Landsmótið, hjálpaði mér með allan undirbúning bæði fyrir úrtökuna og svo á Landsmótinu sjálfu. Þegar ég er hjá Sölva fæ ég að prófa marga mismunandi hesta og það gefur mér mikla reynslu.

Eiðfaxi óskar Önnu Kristínu til hamingju með árangur ársins og biður að heilsa norður í Svarfaðardal.